Fólki þótti mjög spennandi að kíkja aðeins inn í gáminn á leið sinni frá Holtaveginum.

Í níunda sinn var boðið var upp á hið gefandi verkefni Jól í skókassa í haust. Undirtektirnar voru vægast sagt mjög góðar þetta árið. Formleg móttaka var á skókössum um allt land, á 13 stöðum, fyrir utan lokaskiladaginn í Reykjavík. Hann var laugardaginn 10. nóvember og var þá opið hús á Holtavegi 28, aðalstöðvum KFUM og KFUK á Íslandi. Það má með sanni segja að áhuginn hafi aldrei verið meiri; fólk á öllum aldri streymdi í stríðum straumum á Holtaveginn með skókassa undir hendinni fullan af glaðningi handa þurfandi börnum í Úkraínu. Margir fengu sér sæti og þáðu léttar veitingar, horfðu á myndasýningu frá síðustu úthlutun gjafanna frá því í byrjun janúar og fengu tækifæri til að lesa ferðasögur frá liðnum árum. Samkomuhúsið iðaði af lífi, gleði og eftirvæntingu, börnum og fullorðnum.

Í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg var hægt að fá sér sæti og boðið var upp á léttar veitingar og myndasýningu.

Sjálfboðaliðanna beið mikil og þrotlaus vinna. Því fara þurfti yfir kassanna, merkja þá, setja í þá biblíumynd með texta á úkraínsku, flokka, raða þeim á vörubretti og svo koma vörubrettunum vel fyrir í gámnum. Snemma á laugardagskvöldinu varð okkur ljóst að einn 12 metra langur gámur myndi ekki duga eins og venjulega. Þegar honum var lokað aðfaranótt sunnudagsins var hann alveg stappfullur. Þegar við svo komum saman síðdegis á þriðjudeginum þar á eftir til að ganga frá skókössum sem að komu of seint var búið að panta annan gám, 6 metra langan. Sjö vörubretti fóru inn í hann og var hann nokkuð vel nýttur. En niðurstaðan varð sú að sett var met í fjölda skókassa, því það safnaðist hvorki meira né minna en 5.451 skókassi.

Við sem stöndum að verkefninu erum náttúrulega himinlifandi yfir þessari niðurstöðu. Við viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í verkefninu á einhvern  hátt og einnig viljum við þakka öllum þeim fjölmörgum sjálfboðaliðum um allt land sem að lögðu hönd á plóg.

Guði séu þakkir fyrir flott verkefni, allar gjafirnar fyrir börnin og fyrir alla þá sem komu að verkefninu á einn eða annan hátt.

Um kl. 2 aðfararnótt sunnudagins var búið að troðfylla 12 metra gáminn, og ljóst var að það þyrfti að panta einn 6 metra gám til viðbótar.

Bílastæðin við Holtaveginn voru nánast öll full nær allan daginn.