Jól í skókassa-verkefnið nær nú brátt hámarki, og er söfnun á skókössum í fullum gangi í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28, Reykjavík. Tekið er á móti skókössum virka daga milli kl.9 og 17.
Lokaskiladagur verkefnisins í ár er laugardagurinn 12. nóvember í Reykjavík, og lokaskiladagur á landsbyggðinni er laugardagurinn 5. nóvember. Upplýsingar um móttökustaði á landsbyggðinni eru aðgengilegar á heimasíðunni
www.skokassar.net .
Jól í skókassa er nú starfrækt áttunda árið í röð. Sem fyrr gengur það út á að fá fólk á öllum aldri til að útbúa og gefa skókassa með jólaglaðningi fyrir fátæk og munaðarlaus börn í Úkraínu.
Margir fallegir skókassar með jólagjöfum hafa þegar borist til söfnunarinnar, og eru mörg dæmi um það að grunnskólabörn taki þátt í verkefninu. Einnig hafa nokkrir gefendur haft orð á því að þeir hafi verið að safna dóti allt árið til að setja í skókassa og gefa til verkefnisins.
Leiðbeiningar um hvernig útbúa skal skókassana er að finna á síðunni
www.skokassar.net . Í ár er sérstaklega óskað eftir stökum prjónavörum á borð við vettlinga, húfur, sokka, og trefla sem gjafa til verkefnisins.
Síðustu ár hafa fjölmargir tekið þátt í Jól í skókassa, og þúsundir skókassa með jólagjöfum hafa verið sendir með gámi til Úkraínu. Fulltrúar úr umsjónarhóp verkefnisins, Biblíuleshópnum Bleikjunni, hafa fylgt gjafagámnum eftir og séð um afhendingu kassanna til bágstaddra, m.a. munaðarlausra barna, á sjúkrahúsum og á fleiri stöðum. Í ár verður verkefnið með sama hætti.
Allir eru hvattir til að vera með í þessu góða framtaki!
Hér til hliðar má sjá myndir af afhendingu skókassanna sem söfnuðust fyrir jólin 2010, til barna í Úkraínu.
Nánari upplýsingar um Jól í skókassa má fá hjá Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 588-8899 og á
www.skokassar.net .