Að kvöldi miðvikudags snemma í janúar 2020 lögðum við þrjú, Hreinn, Palli og Arna, af stað í ferðalag, við vorum sendinefnd verkefnisins Jól í skókassa. Íslenska veðráttan hafði þá þegar bæði seinkað og flýtt ferðinni sem var heitið til Úkraínu með viðkomu á finnskum flugvelli. Á finnska flugvellinum var mjög löng bið og á meðan beðið var leið dagurinn sem hafði átt að vera fyrsti dagurinn okkar í Úkraínu. Við fengum að fylgjast með tveimur úthlutunum í gegnum síma, stóðum og veifuðum fyrir framan pínulítinn skjá og óskuðum þess að vera komin á leiðarenda.

Þegar við lentum í Kiev, höfuðborg Úkraínu, var komið fimmtudagskvöld. Þar tók á móti okkur ungur maður sem heitir Vlad. Við fórum með honum í bíl til Kirovohrad. Þangað var rúmlega fjögurra tíma akstur. Vegirnir voru slæmir, engin öryggisbelti í bílnum og bílstjórinn ók með vægast sagt frjálsri aðferð og tók fram úr hvenær sem honum datt í hug, hvort sem heil lína væri á götunni eða þegar svarta þoka var skollin á. Sem betur fer vorum við orðin svo framlág að við höfðum ekki rænu á að vera hrædd. Okkur var ekið á fallegt sveitagistiheimili og þar hittum við föður Yvheniy, hér eftir nefndur faðirinn. Þetta voru fagnaðarfundir og við vorum öll spennt fyrir þessum tveimur dögum sem við áttum í vændum.

Eldsnemma að morgni föstudags kom úkraínska teymið og sótti okkur. Þau eru öll sjálfboðaliðar í þessu verkefni og hvert og eitt þeirra sinnir sínu starfi af alúð.  Hópurinn samanstóð af föðurnum sem sér um verkefnið þarna úti, Vlad sem var leiðsögumaðurinn okkar og túlkur meðan á ferðinni stóð og vék ekki frá okkur fyrr en leiðir skildu á flugvellinum við heimferðina. Natasha sem er ung stúlka sem er að stíga sín fyrstu skref sem sjálfboðaliði í verkefninu og Amiran sem var bílstjórinn okkar. Í bílnum voru skókassarnir sem við áttum að dreifa þann daginn. Við byrjuðum á að fara inn í borgina og heimsækja heimili fyrir börn frá mjög fátækum heimilum. Þessi börn eiga foreldra en heimilisaðstæður bjóða ekki upp á að þau búi heima. Þegar börnin höfðu safnast saman dró faðirinn fram íslenska fánann og fór að segja börnunum frá hvað litirnir í honum tákna og að krossinn tákni að Ísland sé kristið land. Síðan fengum við að gefa gjafirnar og svo opnuðu allir á sama tíma. Það var svo yndislegt að sjá litlu andlitin geisla af gleði og sum börnin fóru strax að leika sér með það fyrsta sem kom upp úr kassanum þeirra. Aftast í hópnum stóð lítil stúlka með kassann sinn í fanginu og tárin runnu niður kinnarnar. Í ljós kom að hún vissi ekki hvað hún ætti að gera og það þurfti að sýna henni hvernig hún ætti að opna kassann og um leið tók hún gleði sína.

Næst var ferðinni heitið í heimahús. Við ókum út úr borginni og eftir dálítinn tíma komum við í 300 ára gamalt þorp sem var upphaflega byggt fyrir hermenn. Þá bjuggu þar 7000 manns en nú aðeins 1200. Þar voru malargötur, engar gangstéttir og ekki auðvelt að koma auga á að þar væru skólar, búðir eða einhver fyrirtæki. Húsin lágreist og illa viðhaldið og garðarnir aðeins mold, drulla og drasl. Við byrjuðum á að sækja félagsráðgjafa sem var búinn að velja nokkur heimili til að heimsækja með okkur. Það var mikil upplifun. Samkvæmt föðurnum voru þetta ekki mjög fátækar fjölskyldur en okkur fannst þau búa við mjög bág kjör. Á því fyrsta hafði mikill harmleikur átt sér stað, pabbinn hafði drepið mömmuna og var í fangelsi. Amman og sonur hennar voru því að annast litlu stúlkuna. Amman var þá komin í þá stöðu að mega ekki vinna úti því þeir sem eru með barn yngra en 6 ára á framfæri verða að vera heima og annast barnið því það eru engir leikskólar. Í staðinn fá þau mjög litla greiðslu frá ríkinu.

Á öðru heimili áttu báðir foreldrarnir við áfengisvanda að stríða og óttuðust að missa börnin sín þrjú. Á einu heimilinu var mamman í vinnu en pabbinn ekki, hann hefur bara vinnu á sumrin. Heimilin báru öll merki mikillar fátæktar á íslenskan mælikvarða, sum höfðu rafmagn önnur ekki, sum höfðu gas frá Rússlandi, önnur gaskút og algengast var að kynt væri með eldiviði í eldavélinni. Öll þessi heimili hafa aðgang að ræktarlandi sem auðveldar þeim að draga fram lífið. Sumir voru með hænur og eitt heimilið átti bæði kind og geit. Á einu heimilinu voru fimm börn og það sjötta væntanlegt. Þeirra húsnæði samanstóð af tveimur herbergjum.  Í eldhúshlutanum voru kojur þar sem dæturnar þrjár sváfu og einn stóll við eldhúsborðið. Í stofunni voru tveir beddar þar sem hjónin og synirnir tveir gátu sofið. Fyrir utan húsið var brunnur og skammt frá stóð skakkur kamar. Börnin á þessu heimili voru snyrtileg og glöð og ekki ólíklegt að þeirra aðstæður séu líkar aðstæðum jafnaldra þeirra í nágrenninu.

Faðirinn tjáði okkur að fólkið sem býr við þessar aðstæður sakni Sovét tímans. Þá höfðu allir vinnu, allir höfðu tilgang og það var miklu ódýrara að kynda húsin. Í mörgum húsanna sáum við jólatré skreytt með rauðu fimm arma Sovét stjörnunni en Úkraínu stjarnan er hvít átta arma.

En við fengum góðar móttökur á öllum heimilunum og börnin glöddust mjög við að fá þessar einföldu og nytsömu gjafir. Þarna laukst upp fyrir okkur hve mikilvægt er að allir fái sápu og tannbursta. Við fórum í sex hús og þannig kláruðum við fyrri daginn okkar.

Á laugardagsmorgni héldum við snemma af stað og nú þurftum við að sækja fleiri skókassa. Við ókum að vörugeymslunni þar sem kassarnir eru geymdir. Fyrir utan stóð gámurinn tómur. Eimskip gaf bæði gáminn og sjóflutninginn, það er nú heldur betur þakkarvert. Þegar inn var komið útskýrði faðirinn fyrirkomulagið fyrir okkur. Hann fær óskir frá stöðum um að fá skókassa. Síðan fær hann í hendur lista með aldri og kyni og jafnvel nöfnum þeirra sem eiga að fá gjafirnar. Þannig var hann með á hreinu hve marga kassa við þyrftum og fyrir hvaða aldur og kyn. Við fylltum bílinn og héldum af stað. Fyrsta stopp var í skóla fyrir fötluð börn. Þar var Hreinn klæddur í jólasveinakápu og látinn leika frænda jólasveinsins og ein starfsstúlkan lék barnabarnið hans og þau fóru í einhverskonar dans og leiki með börnunum. Síðan var þessi frændi jólasveinsins látinn úthluta gjöfum og börnin þökkuðu vel fyrir sig og voru mörg þeirra búin að búa til kort handa okkur eða undirbúa söng eða ljóðaflutning. Þarna ríkti svo mikil gleði og augljóst var að þarna var hugsað mjög vel um börnin.

Næst var ferðinni heitið á heimili fyrir munaðarlaus börn. Þegar við komum stóð yfir sýning á leikriti og í kjölfarið voru dansatriði og einsöngur. Börnin höfðu æft sig mjög vel og það var gaman að fá að fylgjast með þó að við skildum ekki neitt. Eftir að hafa úthlutað gjöfunum vildu börnin fá að tala við okkur, þeim fannst ótrúlegt að við værum komin alla leið frá Íslandi bara til að gleðja þau og þau spurðu um land og þjóð. Öll töluðu þau góða ensku og það var einstaklega gaman að fá þetta tækifæri til að spjalla við þau.

Eftir hádegið sóttum við fleiri kassa og næst var ferðinni heitið í hvítasunnukirkju sem hafði óskað eftir kössum. Þar var leiksýning í gangi og þrátt fyrir að skilja ekki tungumálið áttuðum við okkur nokkurn veginn á því sem fram fór. Það var virkilega gaman að gefa börnunum gjafirnar því þau voru svo þakklát og glöð. Húsnæðið þeirra var á þriðju hæð í hrörlegu húsi. Fyrir framan salinn var stærðar eldiviðarstafli en inni var kalt því það var ekki eldur í arninum og auk þess var húsið vatnslaust. Það hindraði þau ekki í að hafa samveru fyrir krakkana og þetta vakti okkur til umhugsunar um það hve við erum háð því að allt sé fullkomið til að geta gert eitthvað.

Síðasta heimsóknin var til Hjálpræðishersins. Þar var hópur af börnum í fylgd með foreldrum sínum. Jólagleði stóð yfir og við fengum að fylgjast með og svo kom að okkur að gefa gjafirnar. Enn og aftur fengum við að sjá gleði og þakkæti í hverju andliti.

Alls staðar var okkur vel tekið. Við reyndum að láta alla vita að gjafirnar væru ekki frá okkur þremur heldur væru fimm þúsund fjölskyldur heima á litla Íslandi á bak við þessar gjafir.

Um miðnættið vorum við komin um borð í næturlest sem átti að fara með okkur til Kænugarðs (e: Kiev). Það var svo sannarlega upplifun að ferðast í svefnklefa í lest, það var ekki auðvelt að festa svefn við þessar aðstæður en upplifunin var mikils virði. Flugið okkar til Finnlands átti að fara snemma um morguninn og í þetta sinn þurftum við ekki að bíða lengi til að komast á leiðarenda. Heim vorum við komin um klukkan 18 á sunnudegi.

 

Það er svo magnað að fá að taka þátt í þessu verkefni, að fá að vera með í öllu ferlinu. Við höfum séð hvernig einstaklingar og fjölskyldur leggja sig fram við að útbúa fallega kassa, alla sjálfboðaliðana sem kíkja í kassana og bæta í ef eitthvað hefur gleymst, öll fyrirtækin sem styrkja verkefnið, teymið sem tekur við í Úkraínu þegar gámurinn skilar sér þangað og kemur gjöfunum til skila. Faðirinn á hrós skilið fyrir hve vel hann stendur sig í þessu mikilvæga starfi. Alls staðar dró hann fram íslenska fánann og kynnti land og þjóð í stuttu máli. Hann bjóst við að verða til 10. febrúar að klára að úthluta gjöfum.

 

Við þrjú erum full þakklætis fyrir að hafa verið treyst fyrir því að fara sem fulltrúar ykkar sem standið á bak við skókassana.

Takk fyrir okkur

Hreinn Pálsson, Páll Hreinsson og Arna Ingólfsdóttir

Myndir frá ferðinni er hægt að sjá hér:https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157713144120247/with/49547369581/