MÁNUDAGURINN 2. JANÚAR 2017

Þá var loksins komið að þessu, við vorum á leiðinni til Úkraínu. Þvílík forréttindi að fá að fara fyrir hönd verkefnisins, Jól í skókassa, og afhenda börnum í Úkraínu jólagjafir frá Íslendingum.

 

Það var átta manna hópur sem lagði af stað eldsnemma að morgni mánudagsins 2. janúar 2017 út á Keflavíkurflugvöll en fyrir hendi var um 18 klukkustunda ferðalag til Kirovograd í Úkraínu. Við fórum í loftið frá Íslandi í rigningu og myrkri og flugum til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu, með stuttu stoppi í Helsinki. Á flugvellinum í Kænugarði tók á móti okkur bílstjóri sem átti að flytja okkur til Kirovograd. Við komum okkur fyrir í bílnum en þegar spurt var um bílbelti gerði bílstjórinn okkur það ljóst, með leikrænum tilþrifum þar sem að við töluðum ekki sama tungumál, að bílbelti væri slæm og að þau myndu að öllum líkindum kyrkja okkur og voru þau því ekki í boði. Þannig var nú það. Áætlað var að bílferðin frá Kænugarði til Kirovograd myndi taka um fimm klukkustundir. Bílstjórinn tók hins vegar fram úr öllum þeim bílum sem urðu á vegi okkar og við vorum komin á hótelið í Kirovograd rétt eftir miðnætti, fjórum klukkustundum eftir að við lögðum af stað frá flugvellinum, með ágætis stoppi á bensínstöð. Faðir Ievgenii tók á móti okkur á hótelinu með opnum örmum og bauð okkur velkomin og sá til þess að allt gengi vel fyrir sig og að allir kæmust í sitt herbergi. Það var gott að leggjast á koddann eftir langt ferðalag en auðvitað voru allir spenntir fyrir komandi dögum.

ÞRIÐJUDAGURINN 3. JANÚAR 2017

Eftir góðan nætursvefn og staðgóðan morgunverð á hótelinu okkar var lagt af stað út í daginn. Fjórir ungir krakkar hittu okkur fyrir utan hótelið okkar en þar voru á ferðinni sjálfboðaliðar frá KFUM og KFUK í Kirovograd sem að aðstoðuðu við dreifingu skókassanna. Sólin skein og hitinn var rétt undir frostmarki. Andrúmsloftið var tært og hreint og það var gaman að sjá lífið í Kirovograd, þó að það hafi ekki verið margt fólk á ferli. Fyrsti áfangastaður dagsins var heimili þar sem móðir þriggja drengja, á aldrinum 3 ára, 7 ára og 12 ára, tók á móti okkur. Elsti drengurinn var fatlaður og því fylgja margar áskoranir fyrir foreldra en félagsleg aðstoð í Úkraínu er af mjög skornum skammti og er umönnun að öllu eða mestu leyti í höndum foreldra. Það var gaman að sjá gleðina í augum bræðranna þegar þeir skoðuðu það sem kom upp úr skókössunum. Áður en við kvöddum spilaði einn drengurinn jólalag á harmonikku fyrir þessa skrítnu gesti frá Íslandi. Næst heimsóttum við 15 ára stúlku sem glímir við andlega og líkamlega skerðingu. Hún rak upp stór augu þegar átta manna hópur frá Íslandi mætti heim til hennar með skókassa en var afskaplega þakklát. Þriðja heimilið sem við heimsóttum var á fimmtu hæð í stórri blokk. Þar tóku mæðgur á móti okkur en stúlkan sem var 17 ára er líkamlega og andlega fötluð. Inni í stofu var göngubretti og rimlar til þess að stúlkan gæti sinnt nokkurs konar sjúkraþjálfun þar sem að viðeigandi þjónustu var ekki að fá nema í töluverðri fjarlægð frá heimilinu og gat hún því ekki farið þangað eins oft og á þurfti að halda. Í stofunni var einnig jólatré og vegleg hnallþóra sem að húsmóðirin hafði bakað fyrir íslensku gestina. Hún skar vænar sneiðar af kökunni og gaf öllum kvenkynsgestunum. Stelpan var virkilega glöð en hissa með þessa heimsókn. Eftir að móðir hennar hafði flutt fyrir okkur ljóð á úkraínsku þar sem hún þakkaði okkur fyrir og óskaði okkur velfarnaðar héldum við af stað í næstu heimsókn.

 

 

Fjórða heimsókn dagsins var á barnaheimilið Nadiya en það hefur verið heimsótt á hverju ári frá því verkefnið hóf göngu sína og hefur mikil uppbygging átt sér stað þar. Um er að ræða móttökuheimili fyrir börn sem hafa verið tekin af heimilum sínum eða af götunni. Þar dvelja börn í stuttan tíma eða þar til fundin er varanlegri lausn á málum hvers og eins. Í salnum þar sem tekið var á móti okkur stóð stórt jólatré og fljótlega eftir komu okkar streymdu börnin inn í salinn, fyrst þau yngri og síðan þau eldri. Eftirvæntingin skein úr augunum á þeim og eftir að hver og einn var búinn að fá skókassa máttu allir opna kassann sinn. Því verður ekki lýst nóg og vel með orðum, þeim tilfinningum sem að brjótast um innra með manni þegar horft er á börn, sem eiga lítið sem ekkert, opna skókassa fullan af alls konar dóti. Gleðin með nýja húfu eða vettlinga smitaði svo út frá sér og tannkremið og tannburstinn vakti ekki síður gleði. Það var gaman að fá að aðstoða börnin við að taka dótið upp úr skókassanum, hjálpa þeim að klæða sig í ný föt, kenna þeim hvernig PEZ kallarnir virka og sjá þau knúsa bangsann eða keyra bílinn sem leyndist í kassanum. Þau gjörsamlega skríktu úr gleði. Það var mikið brosað og hlegið og allir voru svo ánægðir. Þarna voru börn úr alls konar aðstæður sem áttu mismikið, samt sem áður deildu þau sælgætinu sem þau fengu með öðrum börnum og með okkur, gestunum frá Íslandi. Eftir skoðunarferð um heimilið þar sem við sáum svefnsalina, kennslustofurnar, matsalinn, eldhúsið og fleira, var kominn tími til að kveðja. Faðir Ievgenii átti fullt í fangi með að ná okkur út af heimilinu enda hefðum við viljað dvelja þar lengur með þessum yndislegu börnum.

 

Eftir heita hefðbundna úkraínska súpu sem yljaði okkur fórum við í heimsókn til samtaka langveikra barna sem bjóða upp á sérkennslu fyrir börn sem glíma við fötlun. Í salnum þar sem var tekið á móti okkur var stórt jólatré og hljóðkerfi og þar biðu börn og foreldrar þeirra eftir okkur. Það má eiginlega segja að um hafi verið að ræða jólaball þar sem við dönsuðum í kring um jólatré og úkraínski jólasveinninn, „Father Frost“, mætti á svæðið. Þar var dansað og sungið og greinilegt að samtökin voru ánægð með fyrri heimsóknir þar sem búið var að útbúa ýmis atriði og gjafir til okkar í þakklætisskyni. Börnin fengu skókassana sína og það var mikil gleði þegar þau gægðust ofan í kassana sína og sáu hvað þeir höfðu að geyma.

 

Síðasta heimsókn dagsins var á heimili þar sem búa um 15 börn sem eiga, af ýmsum sökum, ekki foreldra. Það var ánægjulegt að sjá hvað það fór vel um börnin og hvað þau voru ánægð í þessu stóra húsi. Það voru pólsk samtök sem fjármögnuðu byggingu hússins en úkraínsk stjórnvöld sjá um reksturinn. Í hverju herbergi sofa tvö börn, þau ganga í skóla, stunda íþróttir og aðrar tómstundir og fá vasapening í hverri viku. Krakkarnir buðu okkur upp á heitt te og smákökur sem bragðaðist vel á meðan faðir Ievgenii sagði þeim frá Íslandi og ræddi við þau um ýmis málefni. Þar var sömu sögu að segja og á hinum stöðunum sem við höfðum heimsótt. Allir voru ánægðir með gjafirnar, hvort sem að það var nýr jakki, bakpoki, skóladót eða sætindi frá Íslandi. Við enduðum svo daginn á að borða kvöldmat með öllum sjálfboðaliðum dagsins og áttum ánægjulega stund áður en haldið var í háttinn eftir gleðiríkan dag.

 

MIÐVIKUDAGURINN 4. JANÚAR 2017

Við byrjuðum daginn á því að ganga á bókasafnið þar sem samtökin Mother’s Heart tóku á móti okkur en um er að ræða samtök einstæðra mæðra sem eiga fötluð börn. Okkur var tekið fagnandi þegar við komum þangað. Jólasveinninn “Father Frost” var mættur á svæðið og var að syngja með börnunum ásamt konu sinni. Börnunum hafði verið skipt í tvo hópa vegna fjölda og fyrri hópurinn var kominn og eftir stutta ræðu afhentum við öllum skókassa og gengum svo á milli barnanna þegar þau gægðust í kassana til að sjá hvað leyndist í þeim. Þvílíkur spenningur og þvílík gleði. Sumir voru æstir í að máta nýju fötin en aðrir ekki. Margir smökkuðu sætindin sem leyndust í kössunum og voru með súkkulaði út á kinnar en aðrir skoðuðu tannburstann og tannkremið. Þvílík forréttindi að fá að upplifa þessa gleði. Áður en við afhentu næsta hópi skókassana sína hélt forsvarskona samtakanna ræðu og var hún hrærð yfir góðvilja Íslendinga og þakkaði afskaplega fallega fyrir með orðum sem og fallegum gjöfum og mátti heyra á henni að hún var mjög meyr þegar hún þakkaði fyrir sér. Það verður að viðurkennast að það kom smá kusk í augað á Íslendingunum þegar við sáum teiknaðar og málaðar myndir frá börnunum og fleira sem fólk hafði föndrað handa okkur sem þakklætisvott fyrir allar gjafirnar. Börnin voru á öllum aldri og það var sama hvort þau voru lítil eða stór, það glöddust allir yfir innihaldi pakkanna og foreldrar þeirra sýndu einnig mikið þakklæti. Þarna sáum við svo börn í íslenskum lopapeysum sem höfðu borist nokkrum árum áður og greinilegt að gjafirnar frá Íslandi nýtast vel.

 

Eftir að hafa átt yndislega stund með börnum og fullorðnum héldum við út í kalda en ferska loftið. Dagurinn var virkilega fallegur, sólin skein og við fórum í smá skoðunarferð um miðbæinn í Kirovograd. Við borðuðum svo hádegismat áður en við fórum á samkomu hjá Hjálpræðishernum og afhentum fleiri börnum gjafir. Það var mikil stemmning á samkomunni sem var haldin í stórum sal með stóru sviði en þar var ekki verið að eyða peningum í að kynda salinn og voru því allir mjög vel klæddir innandyra.

Seinasta heimsókn dagsins var á stofnun þar sem fötluð börn dvelja á daginn í staðinn fyrir að fara í skóla. Þar er kennslan sniðin að þörfum hvers og eins og þar fór fram hæfing og annað til að auka lífsgæði barnanna. Faðir Ievgenii hefur tekið á móti mörgum Íslendingum og greinilegt að hann hefur orðið var við áhuga Íslendinga á að versla. Honum fannst því afar mikilvægt að fara með okkur í hálfgerða verslunarmiðstöð en þar sem að við ferðuðumst aðeins með handfarangur var ekki mikið keypt. Við enduðum svo kvöldið á því að borða saman áður en haldið var upp á hótel.

 

FIMMTUDAGURINN 5. JANÚAR 2017

Áður en við vissum af rann upp seinasti dagurinn okkar þar sem við afhentum skókassa til barnanna í Úkraínu. Dagurinn hófst með akstri frá Kirovograd til Subotcy, sem er lítill bær rétt norðaustan af Kirovograd, þar sem prestsetur föðurs Ievgenii er staðsett. Eftir stutt stopp í Subotcy var farið á munaðarleysingjaheimili fyrir lítil börn sem glíma við einhvers konar veikindi, líkamleg eða andleg. Við settumst niður með börnunum og hjálpuðu þeim að opna kassana sína. Þau skríktu af ánægju, mátuðu fötin, skoðuðu tannburstana og smökkuðu góðgætið. Það var líka afar áhugavert að sjá heimilið og þrátt fyrir erfiðar aðstæður þá virtist fara vel um börnin. Í stóru leikherbergi var svo að finna mikið af leikföngum sem að hafa borist frá Íslandi í gegn um árin. Það var gaman að sjá hvað við Íslendingar höfum lagt mikið af mörkum til þess að gleðja börnin í Úkraínu.

 

Þaðan héldum við á skrifstofu félagsþjónustunnar í Znamianka. Þar er rekið öflugt starf þar sem starfsmenn félagsþjónustunnar vinna í því að koma munaðarlausum börnum, eða börnum sem eiga foreldra sem sinna ekki foreldrahlutverkinu, fyrir hjá fjölskyldum í bænum og fá þær greitt ákveðna upphæð fyrir hvert barn. Sumar fjölskyldur taka mörg börn inn á heimilið og er það því þeirra vinna að sjá um börnin. Þar komu börn á öllum aldri og fengu skókassa og þar hittum við líka börn sem höfðu áður fengið skókassa og sögðu þau okkur hvað þeim hefði þótt skemmtilegt að fá. Eftir ljúffengan hádegismat og stutt rölt um bæinn fórum við á seinasta áfangastað ferðarinnar. Um var að ræða aðra félagsþjónustu á svæðinu sem tók á móti okkur í stórum sal og þar biðu okkur fullt af vel klæddum börnum þar sem að kalt var í veðri og ekki síður kalt inn í salnum. Það var ljúft að sjá gleðina hjá börnunum þegar þau opnuðu kassana sína og tóku gjafirnar upp úr þeim og eins var mikið þakklæti að sjá í augum foreldranna.

 

Við keyrðum til baka á prestsetrið og eftir stutta athöfn í kirkjunni hjá faðir Ievgenii heimsóttum við tvo menn um þrítugt sem að bjuggu rétt hjá. Þeir höfðu komið stuttu áður og beðið Ievgenii um aðstoð þar sem þeir höfðu í engin hús að venda en þeir höfðu átt erfiða ævi. Stuttu áður en þeir leituðu eftir aðstoð hjá honum hafði kona látist og húsið hennar stóð því autt. Hann bauð þeim að búa þar og vinna lítil verkefni til þess að eiga fyrir mat. Húsið var þó ósköp hrörlegt og napurlegt. Það var þó hlýtt inni í húsinu og þeir höfðu mat og húsaskjól og virtust ánægðir með það. Eftir veislu í prestbústaðnum keyrðum við til Znamenka og tókum kvöldlestina til Kænugarðs. Það var sorglegt að kveðja elsku faðir Ievgenii. Hann er hjartahlýr maður sem leggur mikið á sig fyrir aðra og sýnir öllum óendanlegan kærleika, bæði í orðum og verki. Á lestarstöðinni í Kænugarði tók Elena á móti okkur en hún starfaði einu sinni sem sjálfboðaliði á vegum KFUM og KFUK á Íslandi. Hún var búin að panta leigubíl fyrir okkur sem keyrði okkur á hótelið okkar í miðborg Kænugarðs og áttum við góða kvöldstund með henni áður en hún þurfti að halda heim á leið þar sem hún átti að mæta til vinnu morguninn eftir.

 

FÖSTUDAGURINN 6. JANÚAR 2017

Seinasta daginn í Úkraínu notuðum við til að skoða Kænugarð í 15 stiga frosti en borgin er virkilega falleg og saga hennar mjög áhugaverð.

 

LAUGARDAGURINN 7. JANÚAR 2017

Þá var komið að heimferð. Við flugum frá Kænugarði til Amsterdam en fyrirséð var að við hefðum lítinn tíma í Amsterdam til að koma okkur í flugvélina sem átti að flytja okkur til Íslands. Við kvöddum Úkraínu í 18 stiga frosti og roki, afar þakklát fyrir áhugaverða og lærdómsríka dvöl. Fluginu okkar frá Kænugarði til Amsterdam seinkaði töluvert sökum ísingar á flugvellinum í Úkraínu og var því orðið tvísýnt hvort aðvið myndum ná flugvélinni til Íslands. Við lentum í Amsterdam um 30 mínútum áður en flugvélin okkar til Íslands átti að leggja af stað. Við tókum sprettinn og hlupum í gegn um allan flugvöllinn í Amsterdam og rétt náðum flugvélinni heim til Íslands. Það voru því sveittir en ánægðir ferðalangar sem að stigu um borð í flugvélina til Íslands.

 

LOKAORÐ

Það eru sannarlega forréttindi að fá að fara til Úkraínu fyrir hönd Jól í skókassa verkefnisins og afhenda skókassana sem safnast á Íslandi og verður þeirri upplifun því miður ekki lýst nægilega vel með orðum. Alls staðar þar sem við lögðum leið okkar var tekið vel á móti okkur og þakklætið var mikið vegna góðvildar Íslendinga sem vilja gleðja fátæk börn í Úkraínu. Það er þó sorglegt að vita til þess hversu mörg börn búa á barnaheimilum og við mikla fátækt í Úkraínu sem er svo nálægt okkur. Það er sumt sem maður hreinlega skilur ekki en vonandi getum við haldið áfram að leggja okkar að mörkum og halda áfram að gleðja börnin í Úkraínu sem eiga allt gott skilið.

 

Að lokum skal þakka öllum sjálfboðaliðum og þeim sem lögðu verkefninu lið með einhverjum hætti því að án ykkar væri þetta ekki hægt!