Dagarnir líða hratt hér í Kaldárseli og nú er veislukvöldinu að ljúka þar sem drengirnir eru á leiðinni upp í ból að hlusta á sögur foringjanna. Síðustu tveir dagar hafa verið heldur viðburðarríkir. Í gær var farið í gönguferð í 90 metra hellinn sem vakti mikla lukku og í dag var farið í hermannaleik í Kúadal. Voru það mjög ánægjulegar ferðir sem drengirnir voru flestir alsælir með. Í gærkvöldi var haldið alsherjar náttfatapartý þar sem drengirnir horfðu á Harry Potter og viskusteinninn (eða Harry Potter and the… ooohhh, something shiny!!). Vakti það mjög mikla lukku hjá þeim og kom mjög skemmtilegt gullkorn frá einum drengjanna í hópnum. Barn: „Ég veit um einn galdramann, en ég bara man ekki hvað hann heitir.“ Foringi: „Nú, hvað gerði hann?“ Barn: „Æji, hann labbaði á vatni og eitthvað.“ Annað mjög skemmtilegt gullkorn kom frá einum dreng sem kallaði yfir sig á morgunstund: „Jesús hann reis niður til dauða!!“
Það er mikil húllumhæ hérna og það vantar sko ekki ærslaganginn og fjörið í þessa drengi. Mörg ný vinasambönd hafa myndast og er það ánægjulegt. Drengirnir léku sér saman í hoppukastala í dag og í kvöld var haldin veislukvöldvaka með öllu tilheyrandi. Núna eru drengirnir að líða út af í draumaheim hver á fætur öðrum enda margir orðnir þreyttir og spenntir að komast heim til mömmu og pabba.
Það hefur verið ánægjulegt að kynnast þessum drengjum. Á morgun er brottfarardagur og minni ég foreldra á að það á að sækja börnin kl 17:00 á morgun hingað í Kaldársel. Myndir eru komnar hingað inn og hvet ég alla til að skoða þær.
Kveðja frá Kaldárseli!