Áður en sótt er um starf hjá KFUM og KFUK á Íslandi er nauðsynlegt að umsækendur lesi það sem hér fer á eftir. Þegar umsóknin hefur verið skráð rafrænt í vefkerfið, þá birtast skilaboð á síðunni um að umsóknin hafi verið móttekin. Við mælum með að þú takir skjáskot af staðfestingunni. 

Umsóknarfrestur um starf leikjanámskeiðum hefur verið framlengdur.

Stjórnir og starfsfólk KFUM og KFUK á Íslandi líta svo á að þeir sem senda inn umsóknir hafi kynnt sér þau skilyrði sem umsækendur þurfa að uppfylla og samþykki að sækja tilskilin námskeið félagsins.

Sumarstarf KFUM og KFUK

Starf KFUM og KFUK er kristilegt hugsjóna-, mannræktar- og æskulýðsstarf. Fræðsla um kristna trú, miðlun á boðskap Jesú Krists og trúrækni er veigamikill þáttur í hugsjón félagsins og kemur m.a. fram í lögum þess. Það er mikilvægt að starfsmaður eigi samleið með þeirri hugsjón.

Sá sem sækir um starf hjá KFUM og KFUK verður að geta starfað með það að leiðarljósi að börnunum líði vel, finni til öryggis, skemmti sér og taki þátt í heilbrigðu og uppbyggjandi æskulýðsstarfi.

Þátttaka í starfi KFUM og KFUK og sumarbúðum félagsins er að stærstum hluta launalaust sjálfboðastarf. Með því að starfa í sumarbúðum, er viðkomandi að taka þátt í félagsstarfi og leggja hugsjónastarfi lið með framlagi sínu. Félagið hefur tök á að umbuna hluta þeirra sem starfa í skipulögðum dvalarflokkum sumarbúðanna, með launagreiðslum, sem reiknast pr. unninn dag. Aðilum er þó ljóst að sú umbun kann að vera lægri en samið hefur verið um í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, einkum ef tekið er tillit til vinnutíma.

Hér er heldur ekki um að ræða hefðbundið samband vinnuveitanda og launþega heldur félagsstarf, þar sem hluti af starfsskyldum felst í launalausu sjálfboðaliðastarfi.

Lágmarksaldur til að starfa í sumarbúðum KFUM og KFUK er 18 ára. Ungmenni sem ekki hafa náð 18 ára aldri hafa tök á því að starfa sem aðstoðarforingjar. Áréttað skal að störf aðstoðarforingja eru launalaus sjálfboðastörf. KFUM og KFUK ræður ekki fólk undir 18 ára til launaðra starfa.

Að starfa í sumarbúðum

Að starfa í sumarbúðum og á leikjanámskeiðum gerir miklar kröfur til starfsmanna. Verkefnin eru misjöfn og margvísleg en hafa öll sama markmið og eru öll jafn mikilvæg. Góð samvinna starfsmanna er lykilatriði í velheppnaðri sumardvöl barns.

Starfsmaður í sumarbúðum verður að vera tilbúinn til að leggja mjög hart að sér og vinna langan vinnudag. Vinnudagur hefst með því að börnin eru vakin og honum lýkur ekki fyrr en börnin eru sofnuð. Eftir það geta einnig komið upp erindi sem þarf að sinna. Reynt er að skipuleggja starfið þannig að álag dreifist á starfsmenn og tími gefist til hvíldar inn á milli. Vakin er athygli á því að sumarbúðirnar eru reyklausir vinnustaðir og öll neysla áfengis og annarra vímuefna er óheimil í sumarbúðum KFUM og KFUK á Íslandi.

Þegar valið stendur á milli tveggja jafn hæfra einstaklinga, nýtur sá forgangs sem sótt hefur leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK og tekið virkan þátt sem leiðtogi í vetrarstarfi KFUM og KFUK.

ATHUGIÐ

Við ráðningu þarf viðkomandi starfsmaður að samþykkja eftirfarandi málsgrein:

„Með vísan til 36 gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 10. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007 og reglugerðar um Sakaskrá ríkisins nr. 569/1999 gef ég leyfi mitt til þess að; framkvæmdastjóri eða fulltrúi hans innan KFUM og KFUK á Íslandi, undir þagnaskyldu megi afla upplýsinga hjá sakaskrá ríkisins og eða málaskrá lögreglunnar um það hvort ég hafi hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga og eða dóm vegna brota á ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 án tillits til þess hve langt er liðið frá uppkvaðningu dóms eða afplánunar refsingar“.

Ráðning tekur ekki gildi fyrr en Sakaskrá ríkisins hefur fengið til skoðunar og skilað umsögn um beiðni um upplýsingar úr sakaskrá frá umsækjanda.

Ath. Beiðni til Sakaskrár fer af stað í ráðningarferli (ekki umsóknarferli).

Starfsmannanámskeið

Kröfur til gæða og öryggis eru veigamiklar í starfi KFUM og KFUK og miðast einkum við að félagið starfar fyrst og fremst með börnum og unglingum. KFUM og KFUK á Íslandi gerir kröfu um að starfsfólk í sumarstarfi félagsins hafi sótt námskeiðið Verndum þau eða netnámskeið Æskulýðsvettvangsins um barnavernd innan við 24 mánuðum áður en starfið hefst.

Jafnframt þurfa starfsmenn að búa að grunnþekkingu í skyndihjálp og brunavörnum.

Til að mæta þeim væntingum sem KFUM og KFUK gerir til starfsmanna sinna, býður félagið upp á fjölmörg undirbúningsnámskeið, sem starfsmanni stendur til boða honum að kostnaðarlausu.

Persónuvernd

Umsóknir fyrir sumarstarf á leikjanámskeiðum eru skráðar í gagnabanka á þessari vefsíðu sem vefumsjónaraðilar síðunnar hafa aðgang að. Æskulýðsfulltrúar KFUM og KFUK á Íslandi munu geta nálgast gögnin í gagnabankanum og hlaðið þeim niður til prentunar. Öllum umsóknargögnum í gagnabankanum verður eytt þegar ráðningum er lokið.