Dagana 3.-12. júlí stendur yfir norrænt mót KFUM og KFUK á Lálandi í Danmörku. Hátt í 40 ungmenni frá KFUM og KFUK á Íslandi eru nú á mótinu ásamt leiðtogum og fararstjóra.
Hægt er að fylgjast með bloggfærslum og fréttum af hópnum á eftirfarandi síðu: http://danmork2011.123.is/ .
Í gær, 4. júlí barst eftirfarandi umfjöllun um upphaf ferðarinnar og mótsins frá fararstjóra ferðarinnar, Hreiðari Erni ZoÑ‘ga Stefánssyni:
Á fjórða tug ungmenna ásamt leiðtogum sínum hófu ferð sína í gær á norrænt mót KFUM og KFUK. Eins og hefðbundið er vöknuðum við um miðja nótt og fórum upp á Keflavíkurflugvöll. Nokkur töf var á fluginu þannig að við komumst fyrst af stað rétt fyrir hádegið og nokkrir klukkutímar voru nýttir i að skoða burðarvirki Leifsstöðvar og fleira. Þegar út var komið tók sólin á móti okkur og hitinn var um 24 gráður. Það stóð ekki lengi yfir þar sem að við ókum í átt að mótsstað. Þegar þangað var komið beið okkar kvöldmatur. Við skoðum umhverfið örlítið áður en við fórum að sofa. Í hesthúsunum voru nokkrir smáhestar og allmargir danskir hestar sem eru nálægt því að vera tvisvar sinnum hærri en okkar heima. Það var þreyttur hópur sem fór að sofa um miðnættið. Núna þegar þetta er skrifað eru flestir enn í fastasvefni og því næði til að skrifa nokkrar línur. Við munum senda reglulega fréttir af hópnum og myndir verða sendar einnig. Uppfærð hefur verið facebook-síða þar sem við munum einnig setja inn myndir og fleira. Ef þið þurfið að spyrja einhvers eða koma með kveðjur þá mun ég fara reglulega í póstinn minn og svara honum.
Kær kveðja, Hreiðar