Það er mikilvægt fyrir alla þá sem starfa með börnum og unglingum að vera meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð, geta lesið í vísbendingar um að vanræksla eða ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt, eigi sér stað og vita hvernig bregðast á við ef slík mál skjóta upp kollinum.
Æskulýðsvettvangurinn (ÆV) hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinuVerndum þau. Námskeiðið er byggt á efni bókarinnar Verndum þau og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og unglingum. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem starfa með börnum og ungmennum. Höfundar bókarinnar, Ólöf Ásta Farestveit uppeldis- og afbrotafræðingur og Þorbjörg Sveinsdóttir M.Sc. í sálfræði, sjá um kennslu á námskeiðinu. Báðar starfa þær í Barnahúsi og hafa mikla reynslu af barnaverndarmálum.
Næsta námskeið verður haldið þann 19. október 2017, kl. 19.30 í Skátamiðstöðinni. Mikilvægt er að skrá sig á námskeiðið með því að senda póst á dagga@skatar.is fyrir kl. 16 þann 18. október n.k. Við skráningu þarf að koma fram nafn, netfang og starfsvettvangur (aðildarfélag ÆV). Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Á námskeiðinu verður m.a farið yfir:

  • Tilkynningaskyldu starfsmanna sem vinna með börnum og unglingum.
  • Líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi og vanrækslu hvers konar.
  • Hvernig taka skuli á móti ofbeldisfrásögn.
  • Reglur í samskiptum við börn og ungmenni.
  • Ýmis atriði sem gott er fyrir vinnuveitendur að hafa í huga.
  • Úrræði sem í boði eru í samfélaginu fyrir börn og unglinga sem eru þolendur ofbeldis.