Markmið

Að börnin kynnist sögu KFUM og KFUK og að Guð hafi góðar áætlanir með líf þeirra.

Biblíuvers

Því ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. (Jeremía 29:11)

Séra Friðrik

Sr. Friðrik Friðriksson fæddist þann 25. maí árið 1868 í Svarfaðardal á Norðurlandi. Við fæðingu var naflastrengurinn vafinn 3 hringi um höfuð Friðriks svo óttast var um líf hans. Ljósmóðirin skírði hann strax skemmri skírn og hann var látinn heita Friðrik í höfuðið á pabba sínum sem talinn var hafa látist á sjó skömmu áður. Seinna kom svo í ljós að pabbi hans hafði lent í hrakningum og hann skilaði sér heim heill á húfi stuttu eftir fæðingu sonar síns. Friðrik ólst upp á Norðurlandi en flutti oft á milli bæja með foreldrum sínum sem voru frekar fátækir. Strax í æsku hafði hann mikinn áhuga á bókum og var trúrækinn. Faðir Friðriks lést þegar hann var ungur og móðir hans var veik en þá var fjölskyldan leyst upp og Friðrik sendur í fóstur.

Friðrik fór í Menntaskólann í Reykjavík sem þá var Latínuskólinn. Hann var ágætis námsmaður og tók virkan þátt í félagslífi skólans. Á miðjum skólaferlinum lenti Friðrik í ástarsorg og hann reyndi að sefa þá sorg með áfengisdrykkju og varð sífellt óánægðari með sjálfan sig. Hann ákvað því að fara með skipi til Færeyja og vildi helst bara deyja. En á skipinu kynntist hann manni sem leið álíka illa og honum og Friðrik fór í það hlutverk að reyna að hughreysta hann. Við það áttaði Friðrik sig á því að hann yrði að takast á við eigið líf. Þegar Friðrik kom til Færeyja fékk hann sér vinnu. Hann varð einnig fyrir trúarlegri reynslu sem fékk hann til að snúa aftur heim til Íslands og klára skólann. Eftir stúdentsprófið fór Friðrik svo til Danmerkur og kynntist starfi KFUM, þar hjálpaði hann drengjum sem bjuggu við erfiðar aðstæður.

Starf Friðriks fréttist til Íslands og sendi skólastjóri prestaskólans í Reykjavík, Þórhallur, honum bréf þar sem hann bað hann að koma heim til Íslands og byrja KFUM starf. Friðriki þótti það ekki góð hugmynd að yfirgefa starfið í Danmörku sem gekk svo vel og fara út í óvissuna á Íslandi. Einnig efaðist Friðrik um að hann hefði þá hæfileika sem þyrfti til að byrja starfið í Reykjavík. Friðrik geymdi bréfið en stuttu síðar þegar hann skoðaði bréfið betur tók hann eftir því að það var akkúrat skrifað sama kvöld og hann hafði beðið Guð að leiðbeina sér um framtíð sína. Friðrik leit á þetta sem tákn frá Guði og fór skömmu síðar til Íslands. Þegar hann kom heim fór hann að læra í Prestaskólanum og undirbúa stofnun KFUM. KFUM stofnaði hann svo formlega 2. janúar 1899 og 29. apríl samar ár eftir að stelpurnar höfðu þrýst á hann stofnaði hann KFUK. Eftir þetta gaf Friðrik sig allan í starf KFUM og KFUK á Íslandi.

Friðrik kom einnig að stofnun knattspyrnufélaganna Vals í Reykjavík og Hauka í Hafnarfirði. Einnig tók hann þátt í því að koma á fót bókasafni, kvöldskóla, bindindisfélagi, lúðrasveit og karlakór. Hann kom að stofnun skátafélags og síðast en ekki síst hófst sumarbúðastarf í Vatnaskógi fyrir hans tilstuðlan. En Friðrik hafði kynnst sumarbúðastarfi í Danmörku og því hvatti hann ungu mennina í KFUM á Íslandi til að byrja með samskonar starf.

Sr. Friðrik var vel virtur maður á Íslandi, innan sem og utan KFUM. Hann var kjörinn heiðursdoktor í guðfræði, heiðursborgari Akraness og var sæmdur stórkrossi Fálkaorðunnar árið 1948 fyrir starf sitt í þágu æsku þessa lands.

Friðrik var mikið skáld og orti allt sitt líf, og því er til mikið magn sálma, söngva og kvæða eftir hann. Friðrik lést í mars árið 1961 tæplega 93 ára gamall. Líf Friðriks hafði meiri og dýpri áhrif á íslenska menn og menningu á 20. öldinni, en flestra samferðamanna hans.

Einkunnarorð Sr. Friðriks voru: Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. (Jes 12:3) og uppáhalds biblíuversið hans var: Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. (Sálm 46:2)

Samantekt og umræður

  • Við getum lagt allt okkar í hendur Guðs og hann getur snúið öllu upp í eitthvað gott.
  • Guð hefur fyrirætlanir með líf okkar eins og stendur í Biblíunni, og fyrirætlanir til heilla en ekki óhamingju.
  • Guð getur alltaf gert gott úr hlutunum, jafnvel þegar við höfum klúðrað þeim.
  • Við skulum aldrei gefast upp, þegar öll von virðist úti þá getur Guð gripið inn í og gert eitthvað gott úr því.

Bæn

Vertu Guð faðir

 

Aukaefni

Leir/trölladeig.

Hægt er að móta ýmislegt úr leirnum, eyðileggja það og byrja upp á nýtt. Ef okkur mistekst þá getum við alltaf hnoðað leirinn aftur saman og byrjað upp á nýtt. Jesús vill líka móta lífið okkar og er alltaf tilbúinn að hjálpa okkur að laga það sem okkur hefur mistekist. Einnig fáum við tækifæri aftur og aftur.