Texti: Lúk. 4:14-30 (og 1:26-38)

En Jesús sneri aftur til Galíleu fylltur krafti andans og fóru fregnir af honum um allt nágrennið. 15Hann kenndi í samkundum þeirra og lofuðu hann allir. Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:

Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“

Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð sem fram gengu af munni hans og sögðu: „Er hann ekki sonur Jósefs?“

En Jesús sagði við fólkið: „Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: Læknir, lækna sjálfan þig! Vér höfum heyrt um allt sem gerst hefur í Kapernaúm. Ger nú hið sama hér í ættborg þinni.“ Enn sagði Jesús: „Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu. En satt segi ég yður að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði og mikið hungur í öllu landinu og þó var Elía til engrar þeirra sendur heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi. Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns og enginn þeirra var hreinsaður heldur aðeins Naaman Sýrlendingur.“

Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði er þeir heyrðu þetta, spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan. En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar.

 Framhaldssaga

„Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Slöngutemjarinn“ bls. 65-69.

Engin bein tenging en tengsl við næsta kafla.

Söngvar

  • Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
  • Frelsarinn góði
  • Jesús er bjargið sem byggja má á

Hugleiðing

Boðskapur

Jesús er sannur Guð og sannur maður. Við komum þessum boðskap e.t.v. best til skila til barna með því að benda þeim á hvernig Jesús starfaði og til hvers hann var sendur.

Aðkoma

Útskýrði verkefni Jesús. Hverju stóð hann frammi fyrir? Hann þurfti m.a. að líða og þjást, en hann vissi að hann varð að ganga veg Guðs á enda svo að við gætum eignast samfélag við Guð.

Meginmál

Í trúarjátningunni játum við að Jesús sé getinn af heilögum anda og fæddur af Maríu mey. Með því erum við að segja að Guð hafi í raun og veru komið til okkar í Jesú Kristi sem lítið barn. Við getum aldrei skilið þetta til fulls, en við megum trúa því, að Guð mætir okkur í Jesú Kristi.

Hægt er að minnast á boðun Maríu nokkrum orðum (Lúk. 2) og rifja jafnframt upp hvað gerðist þegar Jesús var skírður af Jóhannesi í ánni Jórdan. Þá steig heilagur andi niður yfir hann eins og dúfa og rödd kom af himni er sagði: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun“ (Lúk. 3:22) það var upphafið á opinberu starfi Jesú og staðfesting á því að Jesús var sonur Guðs með alveg sérstökum hætti.

Stuttu eftir að Jesús var skírður í ánni Jórdan kom hann til Galíleu. Fljótlega fóru að berast ýmsar sögur um hann í héraðinu, en ekki voru allir sem skildu til hvers hann var kominn. Það kom m.a. í ljós þegar hann kom til Nasaret þar sem hann hafði alist upp.

Einn hvíldardaginn fór Jesús í samkunduhúsið í Nasaret og stóð upp til að lesa úr Gamla testamentinu. Orðin sem hann las voru spádómsorð úr Jesaja og hljóðuðu þannig:

Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.

Lúk. 4. 18-19

Síðan sagði Jesús. „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar“ (vers 21). Með komu Jesú var þessi spádómur að rætast. Jesús var kominn til að sýna okkur kærleika Guðs í verki. Hann var kominn til að líkna og lækna og til að fyrirgefa þeim sem voru fátækir í sjálfum sér. Hægt er að taka dæmi úr lífi Jesú til að undirstrika einstaka þætti í spádóminum eða jafnvel biðja þátttakendur um að nefna dæmi.

Þegar Jesús hætti að tala í samkunduhúsinu í Nasaret voru allir fyrst um sinn glaðir yfir því sem hann sagði, en ekki leið á löngu þar til fólkið fór að heimta tákn (vers 23). Jesús gerði hins vegar ekki tákn eftir pöntunum. Hann fann að fólkið var hrokafullt og vildi ekki hlusta á hann þegar hann fór að áminna það. Það reiddist og hrakti hann út fyrir borgina, ætlaði jafnvel að gera honum illt en Jesús gekk í gegnum mannþröngina og fór leiðar sinnar (vers 30).

Það var ekki alltaf tekið vel á móti Jesú þegar hann starfaði hér á jörð, en Jesús lét það ekki hindra sig í því að benda mönnum á kærleika Guðs í orði og verki. Og Guð vill að við lærum af Jesú að bera kærleika til þeirra sem eru í kringum okkur.

Samantekt

Guð mætir okkur í kærleika sínum í Jesú Kristi. Hann veit hvað það er að vera maður, þekkir þarfir okkar og vill gerast vinur okkar. Hann vill líka að við lærum að sýna öðrum þann kærleika sem hann hefur auðsýnt okkur.

Minnisvers

Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, (Lúk. 4:18a)

Bæn

Þökkum Guði fyrir að hann hefur í Jesú Kristi sýnt okkur kærleika sinn í verki. Biðjum Guð um að gefa okkur brot af kærleika sínum svo að við getum orðið öðrum mönnum til blessunar.