Aðalfundur KFUM og KFUK á Íslandi verður laugardaginn 2. apríl 2022, í húsi félagsins að Holtavegi 28 í Reykjavík.  Húsið opnar kl. 9:30 en þá verður heitt á könnunni og kjörgögn verða afhent.  Formleg dagskrá hefst kl. 10:00 og áætlað er að fundi ljúki fyrir kl. 14:00. Allir fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi hafa atkvæðisrétt á fundinum.

Lagabreytingar

Fram hafa komið tvær tillögur um lagabreytingar.  Báðar fela í sér viðbætur við núverandi lög félagsins, en ekki breytingar á þeim texta sem fyrir er. Hægt er að nálgast gildandi lög KFUM og KFUK á slóðinni: Lög KFUM og KFUK á Íslandi – KFUM og KFUK á Íslandi.

Tillaga um viðbót við 8. grein

d. Stjórn KFUM og KFUK á Íslandi skal taka afstöðu til allra lagabreytinga samþykkta á aðalfundum starfsstöðva félagsins fyrir aðalfund sinn sama ár. Ákveði stjórn KFUM og KFUK á Íslandi að samþykkja ekki lagabreytingarnar eða taki stjórnin ekki afstöðu til þeirra fyrir aðalfund KFUM og KFUK á Íslandi skal stjórnin bera lagabreytingarnar upp á aðalfundinum til endanlegrar afgreiðslu. Ákvörðun aðalfundar KFUM og KFUK á Íslandi um synjun eða samþykki lagabreytinga starfstöðvar skal, eftir því sem við á, ganga framar afstöðu stjórnar KFUM og KFUK á Íslandi eða aðalfundar þeirrar starfsstöðvar sem við á.

Flutningsmaður tillögunnar er Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson.  Tillagan er lögð fram í samráði og sátt við stjórn félagsins.

Rökstuðningur

Breytingar á lögum flestra starfsstöðva KFUM og KFUK öðlast ekki gildi fyrr en stjórn KFUM og KFUK á Íslandi samþykkir þær. Um er að ræða öryggisventil t.d. gagnvart fámennum aðalfundum starfsstöðva félagsins.  Með þessari lagabreytingu er hinsvegar verið að veita stjórn félagsins aðhald, að hún þurfi að standa skil fyrir aðalfundi félagsins ef að til þess kemur að hún samþykkir ekki lagabreytingu frá aðalfundi starfsstöðvar.

Tillaga um 9. grein

 9. grein

Tillögu um slit félagsins má eingöngu afgreiða á aðalfundi KFUM og KFUK á Íslandi. Samþykki 4/5 atkvæða aðalfundar þarf til afgreiðslu slíkrar tillögu og skal tillagan áður hafa verið kynnt félagsmönnum með sama hætti og um lagabreytingartillögu væri að ræða samkvæmt 8. gr. Komi til slita á félaginu skulu eignir þess renna til Þjóðkirkjunnar til varðveislu, en afhendast síðar félagi með hliðstæðan tilgang í samvinnu við YMCA Europe eða World YMCA. Verði félaginu slitið skal tilkynning þar að lútandi send almannaheillafélagaskrá Ríkisskattstjóra. 

Tillagan er lögð fram af stjórn KFUM og KFUK á Íslandi.

Rökstuðningur

Við skráningu félagsins í almannaheillaskrá RSK (sem veitir almannaheillafélögum margskonar skattafríðindi) komu athugaemdir frá RSK að lög félagsins tilgreindu ekki hvað yrði um eignir þess ef félagið yrði lagt niður.  Samkvæmt lögum um almannaheillafélög (nr. 110/2021) verður það að koma fram í samþykktum almannaheillafélaga til að hljóta skráningu hjá RSK.

KFUM og KFUK á Íslandi var stofnað á sínum tíma í samstarfi við presta Þjóðkirkjunnar og hefur alla tíð starfað náið með kirkjunni.  Félagið er í alþjóðlegu samstarfi við heimssamband KFUM og er hluti af  Evrópusambandi KFUM. Á þeim vettvangi er m.a. unnið að endurvakningu landshreyfinga KFUM sem hafa af einhverjum ástæðum lognast út af í sínu heimalandi.  Því þykir stjórn KFUM og KFUK það eðlilegast að ef svo óheppilega fari að félagið verði lagt niður, að eignir þess renni til Þjóðkirkjunnar til varðveislu þangað til stofnað verði nýtt félag með hliðstæðan tilgang í samstarfi við alþjóðahreyfingu KFUM.