KFUM og KFUK auglýsir eftir áhugasömum meðlimum í Alþjóðaráð samtakanna. Alþjóðaráð er skipað af stjórn KFUM og KFUK á Ísland og er fulltrúi stjórnar félagsins jafnframt formaður ráðsins. Skipað er í ráðið frá janúar 2021 til eins árs í senn.
Hlutverk ráðsins
Alþjóðaráð á að efla starf KFUM og KFUK á Íslandi á alþjóðavettvangi. Ráðið hefur umsjón með erlendum samskiptum, fylgist með erlendu viðburðum eða verkefnum sem í boði eru og velur þátttakendur til að taka þátt í þeim. Einnig leitast ráðið við að kynna félagið á erlendri grundu.
Eitt af helstu markmiðum ráðsins er að þátttakendur í viðburðum á okkar vegum kynnist og taki þátt í samfélagi ungs fólks víða að og öðlist reynslu sem þeir geti nýtt í starfi sínu fyrir KFUM og KFUK á Íslandi. Alþjóðaráð skal einnig stuðla að aukinni meðvitund félagsmanna og þeirra sem koma að félaginu um að félagið sé hluti af stærri heild á heimsvísu. Það skal gert með fræðslu og greiðara aðgengi að alþjóðastarfinu.
Starfsemi ráðsins
- Alþjóðaráð fundar að jafnaði einu sinni í mánuði. Formaður ráðsins boðar til fundar og gefur út dagskrá. Fundargerðir eru ritaðar eftir hvern fund.
- Meðlimir alþjóðaráðs fylgjast með fréttum úr heimi heimssambanda KFUM og KFUK, evrópusambanda KFUM og KFUK, og norðurlandasamstarfs félaganna.
- Meðlimir alþjóðaráðs meta tækifæri til þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og viðburðum og taka ákvarðanir um þátttöku. Fyrir stærri verkefni og sérhæfða viðburði sem tengjast stjórnsýslu félagsins skulu viðeigandi starfsmenn, framkvæmdastjóri og/eða stjórn KFUM og KFUK á Íslandi taka þátt í ákvarðanatöku.
- Meðlimir alþjóðaráðs skipta með sér umsjón með viðburðum. Í því felst að undirbúa ferðir, hitta þátttakendur fyrir brottför, bera ábyrgð á samskiptum og fylgja viðburðunum eftir þegar heim er komið.
Umsóknir fyrir ráðið skulu sendar inn hér fyrir 10. desember 2020.
Allir fullgildir meðlimir KFUM og KFUK á Íslandi, með áhuga á alþjóðamálum, eru hvattir til að sækja um. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá formanni ráðsins, Tinnu Rós Steinsdóttur, á international@kfum.is