Mig langaði til að kynna fyrir ykkur leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK fyrir 15-17 ára.
Leiðtogaþjálfunin samanstendur af fjórum leiðtogahelgum sem haldnar eru í sumarbúðum félagsins yfir tveggja ára tímabil. Tilgangur með þjálfuninni er að efla einstaklinginn og hæfileika hans til að starfa með börnum í æskulýðsstarfi.
Til að hafa fræðsluna á námskeiðunum fjölbreytta og gagnlega er henni skipt í fjóra þætti:
K – Fræðsla um kristna trú og gildi
F – Almenn félagsmálafræðsla sem eflir einstaklinginn og gerir hann hæfari til að koma fram og sinna félagsmálum.
U – Fræðsla sem gerir einstaklinginn hæfari til að vera leiðtogi í barna- og æskulýðsstarfi.
M – Fræðsla sem snýr að því að styrkja og efla sjálfsmynd, frumkvæði og áræðni einstaklingsins.
Auk leiðtogahelganna taka þátttakendur þátt í verklegri þjálfun þar sem þeir fá tækifæri til að spreyta sig undir leiðsögn reyndari leiðtoga og fá að æfa þau atriði sem þau hafa lært á helgunum.
Þátttakendur fá ekki eingöngu fræðslu og þjálfun til að verða betri leiðtogar því auk fræðslustundanna gefst líka tækifæri til að kynnast nýjum krökkum og eiga saman skemmtilega stund í sumarbúðunum.
Næsta leiðtogahelgi verður haldin í Vindáshlíð dagana 20.-22. september.
Nánari upplýsingar veitir Hjördís í hjordis@kfum.is