Æskulýðs- og fræðsluráð KFUM og KFUK leitar að tveimur áhugasömum einstaklingum til að starfa í ráðinu frá og með 1. febrúar 2015. Æskulýðs- og fræðsluráð hvetur leiðtoga og aðra áhugasama innan félagsins að sækja um. Sérstaklega er óskað eftir umsóknum frá fólki undir 35 ára aldri. Umsóknareyðublað er neðst í þessari frétt.

Skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla:

  • Umsækjandi þarf að vera orðinn 18 ára.
  • Umsækjandi þarf að vera áhugasamur og samviskusamur.
  • Umsækjandi þarf að vera tilbúinn að taka þátt í reglulegu fundahaldi.
  • Umsækjandi þarf að vera viljugur að taka að sér verkefni á vegum ráðsins.

Tekið skal fram að starf æskulýðs- og fræðsluráðs er sjálfboðastarf.

ATH! Umsónarfrestur rennur út mánudaginn 26. janúar 2015.

Æskulýðs- og fræðsluráð KFUM og KFUK á Íslandi mun fara yfir umsóknirnar og velja úr. Allir umsækjendur verða látnir vita hvort þeir hafi orðið fyrir valinu eða ekki.

Hlutverk æskulýðs- og fræðsluráðs KFUM og KFUK

Æskulýðsráð er stjórn KFUM og KFUK til ráðgjafar um allt er lítur að æskulýðsstarfi félagsins. Æskulýðsráð hefur yfirumsjón með æskulýðsstarfi félaganna í umboði stjórnar.

Markmið æskulýðsráðs er að efla æskulýðsstarf KFUM og KFUK.

Verkefni æskulýðs- og fræðsluráðs er að:

  • Móta stefnu æskulýðsstarfs KFUM og KFUK til næstu fimm ára. Áætlunin taki til vetrastarfs og leiðtogafræðslu. (Áætlunin verði kynnt á aðalfundi 2016.)
  • Sjá til þess að gerð sé áætlun um fyrirkomulag og sameiginleg verkefni vetrarstarfs KFUM og KFUK næsta starfsár ásamt kostnaðaráætlun. Áætlunin sé lögð fyrir stjórn KFUM og KFUK á Íslandi.
  • Sjá til þess að gerð sé áætlun um leiðtogaþjálfun næsta starfssárs ásamt kostnaðaráætlun. Áætlunin sé lögð fyrir stjórn KFUM og KFUK á Íslandi.
  • Vera framkvæmdastjóra, æskulýðsfulltrúum og leiðtogum til ráðuneytis varðandi allt er lítur að stjórnun og framkvæmd æskulýðsstarfs félaganna.

Skipan

Æskulýðs- og fræðsluráð skal skipað a.m.k. 4 fulltrúum til tveggja ára í senn. Að lágmarki séu tveir fulltrúar úr stjórn félagsins og tveir fulltrúar úr hópi núverandi eða fyrrverandi leiðtoga. Æskulýðsfulltrúi KFUM og KFUK starfar með æskulýðsráði.

Fulltrúi úr stjórn KFUM og KFUK er formaður ráðsins. Ráðið velur sér ritara. Formaður skal hafa forgöngu um boðun funda. Ritari heldur bókanir um ákvarðanir ráðsins svo og framkvæmdaskýrslu í lok hvers árs.

Æskulýðs- og fræðsluráð fundar með ungmennaráði KFUM og KFUK a.m.k. einu sinni á hverju starfsári og oftar ef þurfa þykir.

Ef óskað er eftir nánari upplýsingum hafið samband við Arnar eða Guðrúnu æskulýðsfulltrúa annaðhvort í síma 5888899 eða með tölvupósti á arnar(hjá)kfum.is eða gudrun(hjá)kfum.is.

[form aeskrad]