Nú á laugardaginn var hið árlega brennómót yngri deilda haldið á Holtaveginum. Um 40 krakkar tóku þátt í mótinu ásamt leiðtogum sínum. Með því að halda mótið í okkar eigin félagshúsi myndast notalegt andrúmsloft og meira svigrúm til að bjóða upp á ýmsa afþreyingu meðfram brennómótinu. Við hófum mótið með skemmtilegum fjöldasöng og bæn áður en leikirnir hófust. Á meðan var í boði að spila, föndra eða reyna við ýmsar þrautir ásamt spurningaleik. Það má því segja að húsið hafi iðað af lífi og frábært að gefa krökkunum tækifæri til að hitta hvert annað.