Nú um helgina var Æskulýðsmótið Friðrik haldið í Vatnaskógi fyrir allar unglingadeildir KFUM og KFUK.  Mótið var vel sótt og dvöldu um 160 manns í Vatnaskógi í góðu yfirlæti.  Yfirskrift mótsins var náungakærleikur og sáum við þann kærleika svo sannarlega í verki á mótinu.

Dagskrá mótsins var fjölbreytt og skemmtileg og má þar nefna Mission impossible leik, kvöldvökur, hópastarf, draugagang, orrustu, íþróttir, spil og svo mætti lengi telja.  Á laugardagskvöldinu var svo haldin kvöldvaka og ball með Sálmara á Hlöðum.  Unglingarnir voru til fyrirmyndar í alla staði og gaman að sjá fólk af landinu öllu njóta samverunnar.  Leiðtogar stóðu sig frábærlega eins og alltaf, gengu í öll verk og sáu um að allt gengi upp.  Mótsstjórn og allur undirbúningur  var í höndum þriggja drengja, þeirra Axels, Samúels og Ísaks.   Þeir sóttu viðburðarstjórnunarnámskeið og var undirbúningur þessa móts liður í því námskeiði.  Þeir stóðu sig svo sannarlega vel og eiga heiður skilið fyrir frábærlega vel heppnað mót.