Jól í skókassa
Kæru vinir Jól í skókassa. Þrátt fyrir erfitt ástand í Úkraínu og ólgu í austurhluta landsins undanfarna mánuði eru aðstandendur Jól í skókassa í óða önn að skipuleggja söfnunina í haust eins og undanfarin tíu ár. Stjórn verkefnisins fylgist vel með málum í Úkraínu og er í reglulegu sambandi við tengiliði verkefnisins þar til að meta stöðuna. Þörfin fyrir skókassana er síst minni nú en undanfarin ár og á svæðinu þar sem við störfum, í miðhluta landsins, er einnig kominn töluverður flóttamannastraumur.

Bæklingar hafa verið prentaðir og hægt er að nálgast þá fljótlega á skrifstofu KFUM og KFUK í Reykjavík (588-8899). Lokaskiladagur í ár er laugardagurinn 15. nóvember á Holtavegi 28, Reykjavík, en lokaskiladagur úti á landi er að jafnaði viku fyrr en í höfuðborginni.
Við sem stöndum að verkefninu viljum þakka ykkur öllum fyrir áhuga ykkar og stuðning við verkefnið undanfarin ár. Það er von okkar og trú að hver kassi skipti máli.
Nánari upplýsingar munu birtast þegar nær dregur.