Það hefur verið ansi gaman hjá okkur á leikjanámskeiðinu þessa vikuna. Það rættist úr veðurspánni og vorum við glöð með það. Alla morgna sungum við sunnudagaskólalög og fræddumst um Guð og Jesú og mörg af þeim góðu gildum sem boðuð eru.
Á mánudaginn var mikið spilað og leikið í kirkjunni. Eftir hádegi fórum við í stutta strætóferð í Hlíðagarð í Kópavogi þar sem börnin voru dugleg að leika sér og hafa gaman.
Á þriðjudaginn var mjög leiðinlegt veður og ákveðið var að halda til í kirkjunni þann daginn. Börnin spiluðu og léku sér og eftir hádegi var síðan boðið uppá dvd mynd og popp, sannkölluð bíó stemmning.
Á miðvikudaginn skelltum við okkur með strætó niður í bæ og fórum í Hallgrímskirkju. Við fengum leiðsögn um kirkjuna og fræddumst um hana. Síðan fórum við uppí turninn og nutum útsýnisins. Að lokum lá leið okkur niður í Hljómskálagarð þar sem við borðuðum hádegismatinn okkar og lékum í leiktækjunum þar til það var kominn tími á að snúa til baka með strætó.
Á fimmtudaginn fórum við í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Það var mjög vel heppnuð ferð, sem og allar hinar, og skemmtu börnin sér vel.
Í dag, föstudag, fer svo fram sumarhátíðin okkar en þá förum við í höfuðstöðvar KFUM & KFUK þar sem grillaðar verðapylsur, boðið verður uppá hoppukastala og andlitsmálun.
Þetta var frábær vika og krakkarnir voru sér og sínum til sóma.
Því miður hefur tæknin verið að stríða okkur og við höfum ekki náð að setja myndir inná myndasíðuna okkar.
Takk fyrir samveruna
Svava Sigríður Svavarsdóttir forstöðukona.