Mánudagur á Heimsþinginu hófst með helgistund og að henni lokinni var komið að skýrslu frá Johan Vilhelm framkvæmdastjóra Heimssambands KFUM. Í skýrslu sinni kom Johan inn á hvernig KFUM hefur með starfi sínu á undanliðnum árum stuðlað að valdeflingu ungs fólks um allan heim. Fjölmargar sögur vitna um hvernig starf KFUM breytir lífi fólks til betri vegar og við megum vera stolt af því starfi sem félagið okkar stendur fyrir um heim allan. Kannski er ekki alltaf áhersla á að kannast við Jesú Krist og í stærstu æskulýðshreyfingu heims er ekki að undra þó áherslurnar séu ólíkar en Johan undirstrikaði mikilvægi þess að KFUM er kristileg hreyfing sem er kölluð til að þjóna fólki í kærleika. Skýrsluna má lesa í heild sinni á ensku hér.

Eftir hádegi var boðið upp á ýmsar áhugaverðar málstofur. Daníel fór á tvær málstofur, sú fyrri var um hvernig nota má kvikmyndagerð í æskulýðsstarfi og seinni var um Stop Poverty verkefnið sem Y-Global í Noregi leiðir en Daníel gaf smá skýrslu um hvernig það starf hefur verið að þróast á Íslandi síðan við kynntumst því fyrst á Evrópuhátíðinni í Prag fyrir ári. Jóhann fór einnig á tvær málstofur, sú fyrri fjallaði um aðferðarfræði rannsóknar á vegum Heimssambandsins sem ber yfirskriftina “One Million Voices” en um er að ræða mjög metnaðarfullt rannsóknarverkefni þar sem stefnt er að því að kanna aðstæður ungmenna á aldrinum 14-25 ára með aðstoð KFUM og KFUK félaga um allan heim. Seinni málstofan var um starf KFUM í Perth í Skotlandi og var mjög áhugavert að heyra af þeim verkefnum sem þar eru í gangi og ekki síst verkefni sem ber yfirskriftina “Living Balance” og miðar að því að aðstoða ungmenni sem eru í vanda með að fóta sig í lífinu. Hægt er að skoða verkefnið betur hér.

Í kvöldmatnum var þátttakendum skipt upp eftir heimsálfum og meðan við vorum að borða voru flutt stutt erindi og í lokin stóðu allir frá Evrópu saman í einum stórum 300 manna hring og báðu saman Faðir vorið. Kvölddagskráin fór svo að mestu leiti í að kynna þá sem eru í framboði til stjórnar og í lokin var fundur fyrir Breytendur og reynda leiðtoga sem í fyrramálið byrja að leiða málefnavinnu í hópastarfi.