IMG_0619

Í gær fóru af stað frá Íslandi á Heimsþing KFUM í Colorado, Jóhann Þorsteinsson, sviðsstjóri æskulýðssviðs og Daníel Bergmann, æskulýðsleiðtogi og “Change Agent” fulltrúi KFUM og KFUK á Íslandi. Ferðin tók nokkurn tíma en um klukkan fimm í nótt var komið á áfangastað. Hér er að fara hefjast spennandi og áhugaverð dagskrá þar sem meðal annars verður unnið í 70 tuttugu manna hópum að stefnumörkun fyrir Heimssamband KFUM til næstu ára. Hverjum umræðuhóp er stýrt af þremur “Change Agent” fulltrúum og einum reyndum leiðtoga. Bæði Jóhann og Daníel hafa tekið þátt í undirbúningi fyrir þessa hópavinnu og taka þátt í að leiða sitt hvorn hópinn.

Hér er að auki einn íslendingur til viðbótar en það er hún Tinna Rós Steinsdóttir, formaður Alþjóðaráðs KFUM og KFUK á Íslandi en hún hefur síðastliðið ár starfað fyrir Y’s Men International með skrifstofu í Sviss og voru fagnaðarfundir í morgun þegar við hittumst í morgunverði. Hér eru um 1.500 manns alls staðar frá og verður gaman að setja inn smá fréttir héðan á meðan að dvöl okkar stendur.

Nokkrar myndir af fögru umhverfi Estes Park eru komnar á netið og má skoða þær hér.