Þann 6. júní mun KFUM og KFUK víðsvegar um heiminn standa fyrir heimsáskorun sem felur í sér að fá sem flesta til að taka undir þá yfirlýsingu að við viljum vekja athygli á ungu fólki og viljum að rödd þeirra heyrist. Markmiðið með heimsáskoruninni er að vekja athygli á því mikilvæga hlutverki sem KFUM og KFUK gegnir um allan heim í valdeflingu ungs fólks.

Við getum tekið þátt með því að hrósa og hvetja unga fólkið okkar til dáða en í þessari og næstu viku eru sumarbúðirnar einmitt að hefja dagskrá sína en starfsfólk sumarbúðanna er að stærstum hluta til skipað ungu hæfileikaríku fólki sem við viljum efla og hvetja til góðra verka.

Við hvetjum félagsfólk til þess að setja inn myndir á samfélagsmiðla í tilefni dagsins og nota merkingarnar (hashtag) #stand4youth og #kfumkfukiceland. Myndefnið getur verið af margvíslegum toga, allt frá landslagsmyndum og yfir í það að vera myndir af hressu ungu fólki sem gleðst yfir þeim tækifærum sem lífið hefur upp á að bjóða. Sérstaklega væri gaman að fá myndir úr starfsstöðvum félagsins þar sem eitthvað er um að vera eins og í Gauraflokki í Vatnaskógi, Riddaraflokki á Hólavatni eða jafnvel frá Vinagarði.

Verum með og tökum þátt í að vekja athygli á unga fólkinu og stuðlum að því að þau fái tækifæri til að láta rödd sína heyrast.