Unnur Rún Sveinsdóttir er 21 árs stelpa sem elskar að lifa lífinu. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands vorið 2013 þar sem hún stundaði námið, félagsstörfin og leiklistina af miklum krafti og áhuga. Samhliða því sinnti Unnur Rún einnig unglingastarfi bæði í Seljakirkju og Lindakirkju um tíma auk þess að vera virkur meðlimur í KSS (Kristilegum skólasamtökum) til að byrja með og KSF (Kristilegu stúdentafélagi) seinna meir.

Unnur Rún er uppalin Ölversmær en hefur undanfarið einnig dregist í raðir Skógarmanna/-kvenna í Vatnaskógi þar sem hún hefur sinnt sumarstarfinu auk þess að starfa sem leiðtogi á fermingarnámskeiðum síðastliðið haust. Helstu áhugamál Unnar Rúnar eru leiklist, alls kyns íþróttir, útivist og ferðalög. Unnur Rún sinnir því síðastnefnda nokkuð vel þessa stundina þar sem hún ákvað að halda á vit ævintýranna og skellti sér í þriggja mánaða reisu um Suðaustur Asíu, Spán og England. Hún kemur því heim reynslunni ríkari og til í slaginn fyrir sumarið. Unnur Rún verður eldhússtúlka í 9. flokki og foringi í unglingaflokki.