Hugrún Lena er 22 ára íþróttastelpa úr Bústaðahverfinu sem hefur æft handbolta frá 9 ára aldri. Hún varð stúdent úr Menntaskólanum við Sund árið 2012 og flutti sama ár til Árósa í Danmörku þar sem hún gekk í íþróttalýðháskóla í eitt ár. Þessa dagana stundar hún nám á hönnunarbraut í Tækniskólanum og stefnir á nám í grafískri hönnun. Helstu áhugamál eru íþróttir, hönnun og listir, ljósmyndun, bakstur og ferðalög. Auk þess hefur hún mjög gaman af því að syngja og því kemur eldhúsið líklega til með að óma af söng í sumar.

Hugrún kynntist félaginu þegar hún byrjaði í leikskóla KFUM og KFUK í Langagerði. Hún tók þátt í barnastarfi KFUM og KFUK í Langagerði og Grensáskirkju og barnakór KFUM og KFUK á Holtaveginum. Hún hefur dvalið í hefðbundnum dvalarflokkum í Vindáshlíð og Vatnaskógi og sinnt sjálfboðavinnu í Vatnaskógi. Hún er að hefja sitt fyrsta sumar sem eldhússtúlka í skóginum og verður í eldhúsinu í 2., 5., 6., og 9. flokki.