Halldór Elías eða Elli þjálfar á vorin og haustin 7-9 ára drengi í knattspyrnu á vegum Shaker Youth Soccer Association. Hann hefur yfir 20 ára reynslu af sumarbúðastarfi í Vatnaskógi, hefur tekið vakt með lögreglunni í miðborg Detroit, kynnt sér sjálfboðaliðastörf við uppbyggingu í New Orleans eftir Katrína fellibylinn og glataði sérmerktu Vatnaskógarflíspeysunni sinni þegar hótelherbergið hans hrundi saman á Haiti í jarðskjálfta í janúar 2010.

Elli trúir á mikilvægi þess að prófa sig áfram og hræðast ekki mistök. Því að ef við gerum allt rétt, þá gerum við ekkert nýtt.

Þegar hann er ekki forstöðumaður í Vatnaskógi, býr Elli ásamt konu og tveimur börnum í heimabæ Ted Mosby, Shaker Heights, Ohio. Hann verður forstöðumaður í 4., 5., 7., 8., 10. og 11. flokki í sumar.

Halldór Elías er stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík 1992, lauk BA prófi í guðfræði 1997 og var vígður sem djákni sama ár. Hann lauk meistaranámi í guðfræði með áherslu á kristilegt safnaðarstarf frá Trinity Lutheran Seminary 2008, lauk rannsóknarnámi í kirkjustjórnun við sama skóla 2010 og hefur starfað m.a. sem æskulýðsfulltrúi KFUM og KFUK, framkvæmdastjóri Æskulýðssambands kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum, framkvæmdastjóri Grensáskirkju og í hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Healthy Congregations Inc. í Columbus Ohio. Halldór Elías kom í fyrsta sinn í Vatnaskóg 1982 og hefur verið starfsmaður þar með hléum frá árinu 1991.