vorferdNú um helgina lauk deildarstarfi KFUM og KFUK formlega með vorferð í Vatnaskóg og á Hólavatn. Um 200 manns fóru í ferðirnar, börn á aldrinum 9-12 ára og leiðtogar ásamt starfsfólki æskulýðssviðs. Veturinn hefur gengið vel, leiðtogarnir hafa lagt metnað sinn í að stýra góðu og öflugu starfi víðsvegar um landið í viku hverri. Fræðslan miðast að því að boða fagnaðarerindið og að sýna hverjum einstakling að hann er dýrmæt sköpun Guðs og að kærleikur Guðs á sér engin takmörk. Einnig hafa leiðtogarnir boðið upp á mjög metnaðarfulla dagskrá í bland við þá góðu fræðslu sem fram fer.
Í Vatnaskóg fóru deildir af höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbæ, Grindavík og frá Patreksfirði en á Hólavatn fóru börn frá Akureyri.
Dagskráin var þétt og er óhætt að segja að hver mínútu hafi verið nýtt til fræðslu, samveru, leikja og skemmtunar. Yfirskriftin var kærleikur og tók öll dagskráin mið af því.
Starfsfólk KFUM og KFUK er þakklátt fyrir veturinn og öll þau börn sem hefur gefist kostur á að sækja starfið okkar sem og fyrir þá dýrmætu leiðtoga sem því stýrðu.