kaffihus
Í gær, sunnudaginn 2. mars var æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar og að því tilefni var víða mikið um að vera í kirkjum landsins. Í Glerárkirkju á Akureyri var boðið upp á kaffihús með léttri tónlist og fleiri atriðum en viðburðurinn var í samstarfi KFUM og KFUK, Hjálpræðishersins og Glerárkirkju. 

Fram komu lofgjörðarhópur Hjálpræðishersins og hljómsveit Lárusar. Þá var sýnd glæný stuttmynd frá TenSing Akureyri og Ragnheiður Sverrisdóttir djákni flutti stutta hugvekju. Um sjötíu gestir komu og nutu þess sem var í boði og söfnuðust um þrjátíu þúsund krónur sem verða nýttar í innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar. Það má því segja að kaffihúsið hafi jafnframt verið liður í Stop Poverty herferðinni sem unglingarnir í KFUM og KFUK hafa verið að leggja lið. Ánægjulegur dagur og flottir unglingar.