GLS leiðtogaráðstefnan – Global Leadership Summit – verður haldin í fimmta sinn á Íslandi dagana 1.-2. nóvember í Neskirkju. Á vefsíðu ráðstefnunnar www.gls.is er hægt að kynna sér fyrirlesara þessa árs og skrá sig til þátttöku. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Að verða enn betri leiðtogi – þar sem þú ert.

GLS ráðstefnan er haldin í Chicago í ágúst ár hvert en í september og fram í nóvember er hún svo haldin víða um heim, fyrirlestrar textaðir og sýndir í miklum gæðum á stóru tjaldi auk umræðna og verkefnavinnu í minni hópum. Fyrirlesarar eru ekki af verri endanum, fólk í fremstu röð innan leiðtoga- og stjórnunarfræða, í kirkjulegu starfi, í fjölmiðlageiranum o.s.frv.

GLS logo

Í ár má nefna úr hópi fyrirlesara Dr. Henry Cloud sem er klínískur sálfræðingur, ráðgjafi í leiðtogafræðum og metsöluhöfundur og Liz Wiseman sem er greinarhöfundur hjá Harvard Business Review og höfundur metsölubókar á sviði leiðtogaþjálfunar, Multipliers: How the Best Leaders Make Everyone Smarter.

Ráðstefnan er byggð á kristnum grundvelli og nýtist hverjum þeim sem veitir forstöðu í einhverri mynd, hvort sem það er hópstjóri í hugbúnaðarfyrirtæki, vaktstjóri á veitingastað, leiðtogi í litlu æskulýðsstarfi, forstjóri stórs fyrirtækis, sóknarnefndarmaður á Seltjarnarnesi eða foreldri fjögurra barna. Við höfum gjarnan stærra leiðtogahlutverk en okkur grunar.

Þeir sem sótt hafa ráðstefnuna undanfarin ár hafa verið gríðarlega ánægðir með gæði hennar og umgjörð og ekki skemmir fyrir að ráðstefnugjaldið er viðráðanlegt fyrir flesta.

Fjárfestu í sjálfum þér og hópnum þínum og skráðu þig á www.gls.is

GLS banner