24

Síðastliðna helgi fóru rúmlega 50 leiðtogar úr deildarstarfi KFUM og KFUK upp í Ölver. Yfirskrift helgarinnar var 24 STUNDIR og var markmiðið að verða öflugri og betri leiðtogar á 24 stundum. Dagskráin var stíf en um leið áhugaverð og gagnleg.

Leiðtogahópnum var að hluta aldursskipt til að koma til móts við ólíkar þarfir leiðtoganna og svo að allir fengju fræðslu miðað við starfsaldur sem og reynslu í starfinu. Myndin um Jesú var sýnd yngri leiðtogunum til að gefa skýra mynd af Jesú og gefa gott yfirlit yfir ævi og starf hans. Á meðan horfði eldri hópurinn á fyrirlestur sem bar yfirskriftina ,,Með vindinn í fangið“. Á laugardeginum var svo unnið með efni myndanna. Einnig fengum við séra Ólaf til þess að tala um náðarverk Jesú sem og köllun kristins manns. Einnig skoðuðum við kvenhetjur og karlhetjur Í Biblíunni. Yngri leiðtogar fengu svo greinagóða kynningu á félaginu okkar meðan eldri hópurinn fór í naflaskoðun með Tómasi Torfasyni. Þar voru skoðaðar leiðir til þess að styrkja deildarstarfið okkar. Tómas mun fylgja þessari vinnu eftir. Einnig var farið í æfingar tengdar mannréttindum úr Kompás.
Helgin var stútfull af fræðslu, yndislegri samveru, lofjörð og gleði og við starfsfólk KFUM og KFUK erum óendanlega þakklát Guði okkar fyrir þá frábæru leiðtoga sem starfa fyrir félagið.

Myndir frá helginni má finna hér.