Sjötta samráðsþing KFUM og KFUK á Íslandi var haldið helgina 11.-13. október í Vatnaskógi. Til helgarinnar var boðað forystufólk í starfi KFUM og KFUK á Íslandi. Var ánægjulegt að sjá að margir höfðu tök á að taka fjölskyldu sína með, og börnin nutu sín í Vatnaskógi undir styrkri leiðsögn Telmu Ýrar Birgisdóttur og Boga Benediktssonar sem sinntu barnadagskrá á meðan fullorðna fólkið sinnti málefnum félagsins. Um 70 manns tóku þátt í helginni.

Samráðsþing 2013

Að þessu sinni var efni helgarinnar að skoða eina af þremur grunnstoðum sterkrar hreyfingar, eins og Heimssamband KFUM setur það fram, sem er að bjóða upp á dagskrártilboð sem hafa gildi fyrir samfélagið (socially relevant programs). Það var því rauði þráður helgarinnar að skoða hvernig við sem félag rækjum það hlutverk að sinna þörfum barna og ungmenna í dag.

Rúnar Vilhjálmsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, kynnti rannsóknir á aðstæðum, líðan og lífsstíl íslenskra skólabarna og unnið var í þremur hópum út frá meginniðurstöðum þessara rannsókna og spurt hvort og þá hvernig við sem félag svörum þeirri þörf sem birtist í niðurstöðunum. Á samráðsþinginu

flutti Bóas Valdórsson, sálfræðingur, fyrirlestur um forsendur heilbrigðs sjálfstrausts hjá börnum og hvernig við sem félag getum eflt sjálfstraust barna í æskulýðsstarfi félagsins. Þá voru þrjá málstofur um ólík efni: Birgir U Ásgeirsson stýrði málstofu um sjálfboðaliða og hvernig við sem félag höldum utan um leiðtogana okkar og veitum þeim leiðsögn. Óskar Birgisson stýrði málstofu um notkun samfélagsmiðla í starfinu okkar og Bóas Valdórsson stýrði málstofu um samstarf við foreldra. Þá flutti Anna Elísabet Gestsdóttir fyrirlestur á samráðsþinginu sem hún kallaði “Að hleypa mennskunni inn í starfið mitt”.

Sa-3

 

Forystufólk félagsins heldur inn í haustið nestað upplýsingum, samræðu og hugmyndum sem eiga eftir að nýtast í starfi KFUM og KFUK í framtíðinni. Á næsta stjórnarfundi KFUM og KFUK á Íslandi sem haldinn verður 23. október n.k. mun stjórnin taka saman niðurstöður helgarinnar og vinna út frá þeim verkefnalista til úrvinnslu og athafna. 

Innilegar þakkir eru færðar öllum þátttakendum helgarinnar, fyrirlesurum, málstofu- og hópstjórum, starfsfólki í eldhúsi og þrifum, barnagæslu og öðru sem þurfti að sinna um helgina, en allt var þetta unnið í sjálfboðastarfi.

 

 

Sa-1Samráðsþing 2013Sa-5