Árið 1987 lýstu Sameinuðu Þjóðirnar því yfir að 17. október ár hvert skyldi vera tileinkaður útrýmingu á fátækt í heiminum. Er sá dagur því nefndur “International Day for the Eradication of Poverty”, eða ,,Alþjóðlegur dagur útrýmingar á fátækt”. Dagurinn verður haldinn í 26. skiptið árið 2013.

Með sanni má segja að KFUM og KFUK leggur hönd sína á plóg á margan hátt hvað varðar útrýmingu fátæktar. Eitt verkefni, sem hefur einmitt það að leiðarljósi, kallast “Stop Poverty Campaign“.Verkefnið er herferð á vegum Y Global sem er alþjóðavettvangur KFUM og KFUK í Noregi, sem einbeitir sér aðallega að mannréttindamálum. Markmið herferðarinnar er að reyna að útrýma allri fátækt í heiminum fyrir árið 2030.

stoppoverty_ny

Í herferðinni kemur fram að fátækt er fyrirbæri sem maðurinn sjálfur hefur búið til, en auðlindir jarðar duga vel til að veita öllum íbúum jarðarinnar gott líf. Það er hins vegar misskipting þeirra sem veldur því að meiri hluti heimsins lifir í fátækt. Því er óhætt að segja að fátækt sé tilbúið vandamál sem vel er hægt að leysa.

Fyrstu skrefin eru aukinn þrýstingur á stjórnvöld og aðra valdamenn til þess að breyta um áherslur, stefnur og stjórnarfar. Aukin fræðsla um málefnið er einnig mikilvægur þáttur.

Þátttakendur herferðarinnar eru hvattir til að hafa áhrif á annað samferðafólk sitt og vekja athygli á því að það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að útrýma fátækt.

Ljóst er að verkefnið er ekki einfalt þar sem fátækt hefur verið vandamál mannkyns í margar aldir. Þegar öllu er á botninn hvolft er það hins vegar deginum ljósara að allt mannfólk á rétt á lífi án fátæktar.

Það er því mikilvægt að taka höndum saman og mynda breiða alþjóðlega fylkingu fólks sem er tilbúið að berjast gegn fátækt á friðsælan hátt.

KFUM & KFUK á Íslandi hefur lýst stuðningi sínum við herferðina og nú þegar hafa Daria Rudkova og Perla Magnúsdóttir, í samstarfi við alþjóðaráð KFUM og KFUK á Íslandi, hafist handa við að þróa verkefni sem styðjast við herferðina hér á landi.

Þeir sem vilja koma með hugmyndir, tillögur eða vilja leggja verkefninu lið á einhvern annan hátt er bent á að hafa samband við stoppovertyiceland@gmail.com