mynd_frett-FORS

Vikuna 16. – 20. september hefur KFUM og KFUK deildarstarf sitt af fullum krafti að nýju eftir gott sumarfrí og líflegt starf í sumarbúðum.

KFUM og KFUK starfar víðsvegar um landið í fjölmörgum deildum. Boðið er upp á starf fyrir börn á aldrinum 9-12 ára og einnig fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára. Framhaldsskólanemendum eða ungmennum á aldrinum 15 – 20 ára stendur einnig til boða starf í Kristilegu skólasamtökunum.

KFUM og KFUK er ríkt af sjálfboðaliðum sem gefa af tíma sínum, hæfileikum og gleði til þess að stýra starfinu og gefa börnum þann dýrmæta fjársjóð að fá að kynnast Jesú Kristi og um leið að sýna þeim að þau eru dýrmæt sköpun Guðs í jákvæðu og uppbyggilegu umhverfi. KFUM og KFUK leggur áherslu á að starfið felist í uppbyggilegum frístundum og eru margvísleg verkefni í boði sem gleðja og bæta.
Öllum börnum er mætt af virðingu og væntumþykju.

KFUM og KFUK leggur mikla áherslu á að sjálfboðaliðar fái fræðslu sem styður þá í starfinu og sækja allir starfsmenn námskeiðin Verndum þau og Ekki meir ásamt öðrum námskeiðum. Á æskulýðssviði KFUM og KFUK starfa fjórir fagmenntaðir starfsmenn sem allir hafa mikla reynslu af barna- og æskulýðsstarfi. Hlutverk þeirra er að hafa yfirumsjón með öllu barna og unglingastarfi KFUM og KFUK.

Við horfum björtum augum til vetrarins með okkar frábæru leiðtoga innanborðs sem eru stútfullir af hugmyndum og tilbúnir að skapa skemmtilegar minningar með börnum og unglingum í starfi KFUM og KFUK.