Á dagskrá aðalfundar KFUM og KFUK á Íslandi þann 13. apríl næstkomandi verða kynnt og borin upp til samþykktar ný lög fyrir sumarbúðir KFUM og KFUK í Ölveri. Ölver var sjálfseignarstofnun, en varð ein af starfsstöðvum KFUM og KFUK á Íslandi árið 2009. Hér má sjá lögin sem borin verða upp á aðalfundinum til samþykktar. Með samþykkt þessara laga er verið að formgera Ölver sem starfsstöð KFUM og KFUK á Íslandi með sama hætti og aðrar sumarbúðir félagsins.
Lög Sumarbúða KFUM og KFUK í Ölveri
1. grein: Skilgreining
Starfsstöðin heitir Sumarbúðir KFUM og KFUK í Ölveri og er sjálfstæð eining innan Kristilegs félags ungra manna og kvenna á Íslandi, skammstafað KFUM og KFUK á Íslandi. Starfsstöðin er staðsett í Hvalfjarðarsveit og starfar á grundvelli laga KFUM og KFUK á Íslandi.
2. gein: Markmið
Á grundvelli 1. gr. laga KFUM og KFUK á Íslandi starfa Sumarbúðir KFUM og KFUK í Ölveri einkum meðal barna og ungmenna. Markmið starfsins er að vekja trú á Krist og kalla til þjónustu í ríki hans, efla trúarlíf og siðferðiskennd og hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri velferð einstaklingsins. Orð Guðs skal skipa öndvegi í öllu starfi starfsstöðvarinnar.
3.grein: Leiðir að markmiðum
Starfsstöðin skal vinna að markmiðum sínum með skipulögðu barna- og unglingastarfi, dvalarflokkum, mótum, útgáfu og fræðslustarfi, fundarhöldum, fjáröflun og á annan þann hátt sem stjórnin ákveður hverju sinni í samræmi við markmið þessara laga.
4. grein: Skipan stjórnar
Á aðalfundi skal kjósa í stjórn. Stjórnina skipa fimm aðalmenn og tveir varamenn sem allir skulu vera fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi. Einn aðalmaður er tilnefndur af stjórn KFUM og KFUK á Íslandi til eins árs í senn. Tveir aðalmenn eru kosnir til tveggja ára í senn og þannig að á víxl ganga tveir úr stjórn á hverjum aðalfundi. Varamenn eru kosnir til eins árs í senn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
5. grein: Kjörnefnd
Stjórn Ölvers skipar tveggja manna kjörnefnd eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund. Kjörnefndarmenn skulu vera fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi og utan stjórnar Ölvers. Kjörnefnd setur upp kjörlista fyrir stjórnarkjör á aðalfundi með hliðsjón af uppástungum félaga KFUM og KFUK á Íslandi, enda berist þær henni að minnsta kosti einni viku fyrir aðalfund.
6. grein: Boðun aðalfundar og dagskrá
Aðalfundur skal haldinn fyrir lok mars ár hvert og skal stjórnin boða til hans með minnst viku fyrirvara. Atkvæðisbærir eru þeir sem hafa atkvæðisrétt á aðalfundi KFUM og KFUK á Íslandi.
Á aðalfundi skal eftirfarandi vera á dagskrá:
- Starfsskýrsla stjórnar lögð fram til umræðu og afgreiðslu.
- Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til umræðu og afgreiðslu.
- Fjárhags- og starfsáætlun kynnt.
- Afgreiðsla lagabreytinga, sbr. 9. grein.
- Stjórnarkjör, sbr. 4. grein.
- Kosning skoðunarmanns reikninga. Stjórn KFUM og KFUK á Íslandi skipar annan skoðunarmann reikninga.
- Önnur mál.
7. grein: Hlutverk stjórnar
Stjórn Ölvers skipuleggur, undirbýr og vakir yfir öllu starfi sumarbúðanna í samræmi við lög starfsstöðvarinnar. Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Ritari skráir fundargerðir stjórnarfunda. Hann tekur saman starfsskýrslu stjórnarinnar fyrir hvern aðalfund. Gjaldkeri skal annast reikningshald og hefur umsjón með rekstrar- og efnahagsreikningum.
Eigi má ávaxta sjóði Ölvers nema á innlánsreikningum í bönkum og sparisjóðum. Þó skal stjórn Ölvers heimilt að ráðstafa sjóðum og eignum á annan hátt ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, þó aðeins með fullu samþykki stjórnar KFUM og KFUK á Íslandi. Stjórninni er ekki heimilt að ráðstafa eignum eða tekjum Ölvers eða veðsetja þær nema í beina þágu starfsins. Aldrei má veita lán úr sjóðum Ölvers til einstaklinga eða út fyrir raðir KFUM og KFUK á Íslandi. Ekki má veðsetja eignir starfsstöðvarinnar eða leggja í verulegar fjárfestingar nema með samþykki stjórnar KFUM og KFUK á Íslandi.
8. grein: Ráðstöfun eigna
Leggist starfsstöðin niður skal KFUM og KFUK á Íslandi ráðstafa eignum hennar. Starfsstöðin Ölver getur ekki gengið úr KFUM og KFUK á Íslandi með eignir sínar.
9. grein: Lagabreytingar
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi Ölvers og þurfa 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna að samþykkja lagabreytingar. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn Ölvers skriflega mánuði fyrir aðalfund sumarbúðanna. Þær skulu kynntar í fundarboði og liggja frammi í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK á Íslandi að minnsta kosti viku fyrir aðalfund. Lagabreytingar öðlast því aðeins gildi að stjórn KFUM og KFUK á Íslandi staðfesti þær.