Laugardaginn 16. mars kl.12:00 hefst skráning í sumarbúðir KFUM og KFUK á Íslandi; Hólavatn, Kaldársel, Vatnaskóg, Vindáshlíð, Ölver og leikjanámskeið fyrir sumarið 2013.

Við munum fagna sumri komandi með fjörugri Vorhátíð um leið og skráningin hefst formlega, bæði í húsum félagsins á Holtavegi 28 í Reykjavík og í Sunnuhlíð 12 á Akureyri. Skemmtileg og fjölbreytt dagskrá verður fyrir börn á öllum aldri. Boðið verður upp á andlitsmálun, hoppukastala, candy-floss og margt fleira spennandi. Einnig verða veitingar til sölu á góðu verði. Vorhátíðin stendur yfir frá kl. 12:00-15:00.

 

Hægt er að ganga frá skráningu með því að koma í hús félagsins á Holtavegi eða Sunnuhlíð, þar sem starfsfólk tekur vel á móti fólki og veitir aðstoð sína, með því að hringja í síma 588-8899, eða á heimasíðunni http://skraning.kfum.is/. Athugið að ef skráning er framkvæmd með netskráningu þarf að greiða allt dvalargjaldið með kreditkorti, til að skráningin framkvæmist að fullu.

Þessa dagana stendur undirbúningur fyrir sumarið sem hæst hjá öllum sumarbúðum KFUM og KFUK. Þar er boðið upp á dvalarflokka fyrir stelpur og stráka á aldrinum 6-18 ára, þar sem skemmtileg og uppbyggileg dagskrá, samverustundir innan- og utandyra, kristileg fræðsla og ótalmargt fleira er í boði. Upplýsingar um verð, flokkaskrár sumarsins og aðrar almennar upplýsingar er að finna hér á heimasíðunni.

Allir eru hjartanlega velkomnir á Vorhátíðina á laugardaginn!