Alþjóðlegur bænadagur kvenna fer fram fyrsta föstudag í mars ár hvert. Markmið bænadagsins er að stuðla að réttlátari og friðsamlegri heimi með því að miðla upplýsingum um kjör kvenna, barna og karla í fjarlægum löndum og mynda alþjóðlega bænakeðju á þessum fyrsta föstudegi í mars ár hvert.
Einkunnarorð þessarar alþjóðlegu kvennahreyfingar eru: „Upplýst bæn – bæn í verki“.
Föstudagskvöldið 1. mars koma konur og karlar um allan heim saman í tilefni af Alþjóða bænadegi kvenna. Efni ársins 2013 kemur frá Frakklandi og hefur að yfirskrift orð Jesú: Gestur var ég og þið hýstuð mig (Matt. 25.35). Beðið er sérstaklega fyrir innflytjendakonum og fjallað um stöðu þeirra frá mismunandi sjónarhornum. Á höfuðborgarsvæðinu verður samkoma í Aðventkirkjunni við Ingólfsstræti og hefst hún kl. 20:00. Sérstakur gestur kvöldsins er frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup. Flutt verður tónlist frá Frakklandi og efninu komið til skila í máli og myndum og með leikrænni tjáningu. Á eftir bjóða konur úr Aðventkirkjunni til samveru þar sem hollustan verður í fyrirrúmi. Dagskráin og samveran eru opin öllum, jafnt konum sem körlum.