Um liðna helgi var haldið leiðtoganámskeið í Vatnaskógi en boðið var upp á tvískipta fræðslu, annars vegar fyrir ungleiðtoga yngri en 18 ára og hins vegar fyrir leiðtoga 18 ára  og eldri. Þátttaka var mjög góð en um 50 leiðtogar voru saman komnir þegar flest var á laugardeginum. Fræðslan var fjölbreytt og gagnleg. Meðal efnis var: “Framsögn og tjáning í gegnum leik”, “Hvað er að vera sjálfboðaliði?”, “Hvernig byggjum við upp framtíðarleiðtoga?”, “Að tala um trú”. Auk þess horfðum við á fyrirlestur John Ortberg frá GLS með yfirskriftinni “Hver er þessi maður”. Inn í þessa dagskrá var svo fléttað lofgjörðar og bænasamverum ásamt Biblíufræðslu og er það trú okkar að leiðtogarnir hafi farið endurnærðir heim á sunnudeginum tilbúnir til að takast á við komandi vikur í æskulýðsstarfinu.

Við finnum að framtíðin er björt með þeim hópi sjálfboðaliða sem með okkur starfar en um leið heyrum við þá ósk að þörf er á fleiri fullorðnum og reyndum leiðtogum. Í okkar stóra félagi eigum við mikinn auð félagsfólks og það er ósk okkar og bæn að Guð megi kalla fleira fólk til starfa í æskulýðsstarfinu. Við vitum að þarna úti er fólk sem til margra ára tók þátt í sumar- og vetrarstarfi KFUM og KFUK en hefur nú um nokkurra ára skeið haldið sig til hlés eða litið svo á að skyldu þeirra væri lokið. Þú getur átt hlutdeild í þessu mikilvæga starfi áfram og við erum reiðubúin að reyna að finna starf sem er við hæfi fyrir hvern og einn. Kristur kallar okkur til að bera vitni um hans kærleik og víða eru tækifæri innan okkar starfs sem því miður er vannýtt vegna skorts á sjálfboðaliðum. Ef þú hefur áhuga viljum við hvetja þig til að hafa samband við okkur á æskulýðssviði.

Jóhann Þorsteinsson
Sviðsstjóri æskulýðssviðs