Þessa vikuna er í heimsókn í Glerárkirkju á Akureyri hópur ungmenna sem eru nemendur í Biblíuskóla Ungs fólks með hlutverk (YWAM) í Montana í Bandaríkjunum. Í gær stjórnaði þessi hópur fundi í unglingadeildinni UD-Glerá sem er sameiginleg unglingadeild Gerárkirkju og KFUM og KFUK á Akureyri. Fundurinn var vel sóttur en tæplega 30 unglingar nutu þess að fara í skemmtilega leiki með gestunum og svo voru sungin ný lofgjörðarlög og þrjú ungmenni gáfu vitnisburði um trú sína á Jesú Krist. Það var frábært að fá að heyra hvernig heilagur andi hefur snert við þessu unga fólki og hvað þau voru ófeimin við að vitna. Unglingarnir okkar voru mjög áhugasamir og virkir og í dag munu þeir líklega flestir taka þátt í fjölbreyttri hópavinnu sem er í boði í Glerárkirkju undir stjórn hópsins frá Montana. Í kvöld er svo boðið upp á samkomu í Glerárkirkju þar sem áhersla verður á lofgjörð og vitnisburði. Sannarlega ánægjuleg heimsókn og gott dæmi um hvernig ungt fólk getur haft áhrif til góðs fyrir samfélagið okkar.