Deildarstarf KFUM og KFUK fer víða vel af stað og sér í lagi unglingastarfið, en rétt um 50 krakkar komu saman í Keflavík í gær og rúmlega 30 krakkar hafa tekið þátt í starfinu í Hveragerði. Samstarf Glerárkirkju og KFUM og KFUK á Akureyri um unglingastarf hefur verið blómlegt, en þar hafa þátttakendur verið um 50 og í Grindavík á fimmtudaginn var mættu 68 unglingar á fund. Starfið hefur farið hægar af stað á höfuðborgarsvæðinu en þó er ágætur hópur í UD KFUM og KFUK í Grensáskirkju og trúfastir drengir í unglingadeildinni í Bústaðakirkju svo dæmi sé tekið. Þá er einnig boðið upp á unglingastarf KFUM og KFUK í Vestmannaeyjum, Lindakirkju í Kópavogi og Fella- og Hólakirkju.
Nú í vikunni byrjar síðan unglingadeild í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi eftir að hafa legið niðri í nokkur ár. Unglingadeildin bætist við öflugt barna- og æskulýðsstarf í húsinu á Holtavegi, en þar er fyrir yngri deild fyrir 10-12 ára drengi og önnur fyrir 10-12 ára stúlkur. Það er boðið upp á Skapandi starf fyrir 11-13 ára krakka á Holtaveginum, TenSing – Iceing bíður upp á frábært listastarf fyrir 14-23 ára og loks má nefna starf Kristilegra skólasamtaka fyrir 15-20 ára.