Lög Kristilegs félags ungra manna og kvenna á Íslandi KFUM & KFUK á Íslandi

GRUNDVÖLLUR OG MARKMIÐ

1. grein

a. Félagið heitir Kristilegt félag ungra manna og kvenna á Íslandi, skammstafað KFUM og KFUK.

b. Félagið starfar á grundvelli hinnar evangelísku lúthersku kirkju.

c. Félagið byggir á grundvallarsetningu Heimssambands KFUK, samþykktri á heimsþingi í Lundúnum 1898, sem hljóðar svo: Kristileg félög ungra kvenna í heiminum leitast við að safna saman ungum konum, sem viðurkenna Drottin Jesú Krist sem Guð sinn og frelsara, samkvæmt heilagri ritningu, eru í lífssamfélagi við hann fyrir kærleika Guðs sem er úthellt í hjörtu þeirra fyrir heilagan anda og vilja starfa í sameiningu að útbreiðslu ríkis hans meðal ungra kvenna á þann hátt sem samræmist orði Guðs.

d. Sömuleiðis byggir félagið á grundvallarsetningu Heimssambands KFUM, samþykktri á heimsþingi í París 1855, sem hljóðar svo: Kristileg félög ungra manna leitast við að safna saman ungum mönnum, sem viðurkenna Jesú Krist sem Guð sinn og frelsara, samkvæmt heilagri ritningu, og vilja vera lærisveinar hans í trú og líferni og starfa í sameiningu að útbreiðslu ríkis hans meðal ungra manna.

e. Lagagrein þessari má ekki breyta.

2. grein

a. Á grundvelli 1. gr. laganna starfar KFUM og KFUK einkum meðal barna, unglinga og ungs fólks. Markmið alls félagsstarfsins er að vekja trú á Krist og kalla til þjónustu í ríki hans, efla trúarlíf og siðferðiskennd og hlynna að andlegri, líkamlegri og félagslegri velferð einstaklingsins.

b. Orð Guðs skal skipa öndvegi í öllu starfi félagsins.

FÉLAGAR

3. grein

a. Börnum og unglingum sem taka þátt í starfi KFUM og KFUK er boðið að gerast félagar.

b. Félagi í KFUM og KFUK er sérhver sá sem gengið hefur í félagið, er orðinn átján ára, tilheyrir evangelískri lútherskri kirkju, hefur staðið skil á félagsgjaldi og vill hlýða lögum félagsins og venjum. Félagi telst fullgildur félagi þegar hann hefur verið í félaginu í a.m.k. fjórar vikur.

c. Fólk úr öðrum kirkjudeildum getur einnig orðið fullgildir félagar í KFUM og KFUK, ef það skuldbindur sig til að gera engar tilraunir til þess að útbreiða sérkenningar kirkjudeildar sinnar í starfi félagsins.

d. Leitast skal við að öllum sjálfboðaliðum og starfsmönnum félagsins, 18 ára og eldri, sé boðið að skrá sig í KFUM og KFUK á Íslandi.

f. Stjórn félagsins skal halda utanum reglur er varða veitingu félagslegra viðurkenninga s.s. gullmerki félagsins og útnefningu heiðursfélaga. Reglur þessar skulu vera aðgengilegar félagsmönnum og breytingar á þeim kynntar aðalfundi félagsins.

e. Stjórnin hefur heimild til að neita fólki um inngöngu í félagið, svo og gera félaga burtræka brjóti þeir gegn félaginu eða lögum þess. Slíkar ákvarðanir þurfa samþykki þriggja fjórðu hluta stjórnar.

STJÓRN

4. grein

a. Stjórn félagsins er kosin á aðalfundi og er æðsta stjórnvald félagsins milli aðalfunda. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár, en varamanna eitt ár.

b. Í stjórn KFUM og KFUK sitja átta aðalmenn, fjórir af hvoru kyni og tveir varamenn, karl og kona. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og kýs formann, varaformann, ritara og gjaldkera. Aðrir stjórnarmenn eru meðstjórnendur. Leitast skal við að jafnvægi sé gætt milli kynjanna í skipun embætta innan stjórnar. Haga skal kosningu þannig að tveir karlar og tvær konur gangi úr stjórninni á hverjum aðalfundi.

c. Launaðir starfsmenn í föstu starfi innan félagsins eða starfsstöðva þess og makar þeirra skulu ekki sitja í stjórn KFUM og KFUK á Íslandi né heldur vera varamenn.

d. Stjórnin heldur fundi, eins oft og þurfa þykir en þó að jafnaði einu sinni í mánuði og skal það er á fundunum gerist varðveitt á viðurkenndan hátt. Ef þörf krefur má boða til aukafunda.

e. Fundur er lögmætur þegar a.m.k. fjórir aðalmenn mæta. Ákvarðanir stjórnar eru bindandi ef meirihluti mættra stjórnarmanna ljær þeim atkvæði sitt.

f. Stjórninni ber að vaka yfir velferð félagsins í hvívetna. Hún markar stefnu þess, ber ábyrgð á og hefur yfirumsjón með rekstri þess og allra starfsstöðva sbr. 7. gr.

g. Við töku meiriháttar ákvarðana, s.s. varðandi byggingu, kaup, sölu og veðsetningu fasteigna, um ráðstöfun meiriháttar fjármuna og ef starfsstöð er lögð niður, sbr. f-lið 7. gr., þarf samþykki þriggja fjórðu hluta stjórnar. Áður en stjórn félagsins tekur meiriháttar ákvörðun ber stjórn að kynna efni hennar á félagsfundi.

FULLTRÚARÁÐ

5. grein

a. Fulltrúaráð er skipað formönnum starfsstöðva eða staðgenglum þeirra. Meginhlutverk fulltrúaráðs er að tryggja tengsl starfsstöðva við stjórn félagsins og vera henni til ráðgjafar.

b. Stjórn félagsins skal funda með fulltrúaráði a.m.k. einu sinni á starfsári.

c. Meirihluti fulltrúaráðs hefur heimild til að boða til aðalfundar verði óeðlilegur dráttur á að stjórn félagsins boði til aðalfundar skv. a-lið 6. gr. eða stjórn félagsins starfar ekki í samræmi við grunngildi félagsins skv. 1. og 2. gr.

AÐALFUNDUR

6. grein

a. Aðalfund skal halda eigi síðar en í aprílmánuði ár hvert og skal stjórnin boða til hans með tryggilegum hætti með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Verði óeðlilegur dráttur á að stjórn félagsins boði til aðalfundar getur fulltrúaráð boðað til aðalfundarins.

b. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa fullgildir félagar.

c. Á aðalfundi eru eftirfarandi mál:

1. Skýrsla stjórnar lögð fram til samþykktar.

2. Reikningar liðins starfsárs ásamt efnahagsreikningi lagðir fram til samþykktar.

3. Skýrslur og reikningar starfsstöðva kynntir.

4. Fjárhags- og starfsáætlun kynnt og lögð fram til samþykktar.

5. Stjórnarkjör sbr. 4 gr. b)

6. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga til eins árs.

7. Ákvörðun árgjalds.

8. Lagabreytingar, ef einhverjar eru.

9. Önnur mál.

d. Stjórn félagsins skipar tvo til fjóra fullgilda félaga í kjörnefnd, a.m.k. einn af hvoru kyni, eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund. Kjörnefnd setur upp a.m.k. sex manna kjörlista fyrir stjórnarkjör á aðalfundi með hliðsjón af uppástungum félagsfólks, enda berist þær henni a.m.k. viku fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal í störfum sínum við uppstillingu kjörlista leitast við að gæta jafnvægis milli kynja og búsetu. 15 fullgildir félagsmenn geta gert tillögu til kjörnefndar að nafni á lista til stjórnarkjörs. Kjörnefnd er skylt að taka tillit til þeirrar tillögu.

f. Reiknings- og starfsárið er almanaksárið.

g. Kjörgengir í stjórn og sem skoðunarmenn reikninga eru fullgildir félagar sem hafa verið í félaginu í a.m.k. tvö ár samfleytt til þess dags sem kosning fer fram, sjá þó c-lið 4. gr.

h. Aðalfundur getur ákveðið að fresta afgreiðslu einstakra liða til framhaldsaðalfundar, sem þá skal boðaður á sama hátt og aðalfundur.

STARFSSTÖÐVAR KFUM OG KFUK Á ÍSLANDI

7. grein

a. KFUM og KFUK á Íslandi eru landssamtök deilda og starfsstöðva sem starfa undir merkjum þess. Félagið gætir hagsmuna starfsins gagnvart opinberum aðilum innanlands og kemur fram fyrir hönd þess í erlendu samstarfi.

b. Starfsstöðvar eru rekstrareiningar innan KFUM og KFUK sem hafa augljósa afmörkun t.d. vegna staðsetningar eða eðli starfseminnar. Þær starfa eftir sérstökum lögum sem hver starfsstöð setur sér og stjórn KFUM og KFUK staðfestir. Stjórnir starfsstöðvanna bera ábyrgð gagnvart stjórn KFUM og KFUK milli aðalfunda sinna og skulu senda stjórn félagsins afrit af fundargerðum sínum.

c. Höfuðstöðvar félagsins og varnarþing er í Reykjavík, Holtavegi 28.

d. Hver starfsstöð skal senda félagsstjórninni árlega skýrslu um störf sín, svo og afrit af ársuppgjöri, fjárhags- og starfsáætlun. Skulu þau gögn liggja fyrir viku fyrir boðaðan aðalfund félagsins.

e. Starfsstöðvar geta ekki gengið úr félaginu með eigur sínar. Sé starfsstöð lögð niður, falla allar eignir hennar til KFUM og KFUK á Íslandi.

f. Stjórn félagsins hefur heimild til að samþykkja nýjar starfsstöðvar eftir því sem þurfa þykir og við á. Einnig getur stjórn félagsins lagt niður starfsstöð ef ekki þykir grundvöllur fyrir starfsemi hennar.

LAGABREYTINGAR

8. grein

a. Lögum þessum má einungis breyta á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu sendar stjórn skriflega eigi síðar en þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund. Tillögur til lagabreytinga skulu kynntar félagsfólki á vefsíðu félagsins, í félagsblaði þess eða með öðrum sambærilegum hætti a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund. Berist stjórn tillögur til lagabreytinga fyrir aðalfundarboð skulu þær sendar út með því.

b. Tillögur til lagabreytinga öðlast því aðeins gildi að 2/3 hlutar greiddra atkvæða séu þeim fylgjandi.

c. Lög þessi ganga framar og koma í stað annarra og eldri laga KFUM og KFUK félaga og ganga framar lögum starfsstöðva félagsins.

d. Stjórn KFUM og KFUK skal taka afstöðu til allra samþykktra lagabreytinga á aðalfundum starfsstöðva félagsins fyrir næsta aðalfund sinn. Ákveði stjórn KFUM og KFUK að samþykkja ekki lagabreytingarnar, eða taki stjórnin ekki afstöðu til þeirra fyrir næsta aðalfund KFUM og KFUK, skal stjórnin bera lagabreytingarnar upp á aðalfundinum til endanlegrar afgreiðslu. Ákvörðun aðalfundar KFUM og KFUK um synjun eða samþykki lagabreytinga starfsstöðvar skal, eftir því sem við á, ganga framar afstöðu stjórnar KFUM og KFUK eða aðalfundar þeirrar starfsstöðvar sem við á.

FÉLAG TIL ALMANNAHEILLA

9. grein

Tillögu um slit félagsins má eingöngu afgreiða á aðalfundi KFUM og KFUK á Íslandi. Samþykki 4/5 atkvæða aðalfundar þarf til afgreiðslu slíkrar tillögu og skal tillagan áður hafa verið kynnt félagsmönnum með sama hætti og um lagabreytingartillögu væri að ræða samkvæmt 8. gr. Komi til slita á félaginu skulu eignir þess fara til Þjóðkirkjunnar til tímabundinnar varðveislu, en afhendast síðar félagi með hliðstæðan tilgang í samvinnu við YMCA Europe eða World YMCA. Verði félaginu slitið skal tilkynning þar að lútandi send almannaheillafélagaskrá Skattsins.

Samþykkt á aðalfundi KFUM og KFUK á Íslandi, 2. apríl 2022.