Kæru vinir og velunnarar Jól í skókassa.

Yfirvöld í Úkraínu hafa loksins samþykkt innihald beggja gámanna frá Jól í skókassa sem mannúðarhjálp, sem þýðir að hinni löngu töf á tollafgreiðslu gámanna er lokið! Þetta gerðist núna seinni hlutann í apríl. Hins vegar urðu mistök varðandi afgreiðslupappírana frá yfirvöldum. Því þurfti að leiðrétta þá áður en við fengum endanlega grænt ljós frá tollyfirvöldum um að við gætum rofið innsiglið á vörugeymslunni þar sem skókassarnir eru geymdir. Fulltrúar okkar í Úkraínu, með föður Evheniy í broddi fylkingar, eyddu mörgum dögum í að fá pappírana leiðrétta svo hægt væri að tollafgreiða varninginn sem fyrst.

Munaðarleysingjaheimilið Pantaivka

Munaðarleysingjaheimilið Pantaivka

Við fengum svo þær gleðilegu fréttir fyrir helgi að leyfi fyrir því að rjúfa innsiglið á vörugeymslunni hefði borist og strax var hafist handa við það að dreifa fyrstu kössunum um helgina, en þá voru páskarnir haldnir hátíðlegir í Úkraínu. Á næstu dögum og vikum verður svo unnið markvisst að dreifingu skókassanna. Við erum náttúrulega himinlifandi yfir þessum gleðitíðindum

Því miður varði þessi töf miklu lengur en okkur, sem stöndum að verkefninu, óraði fyrir. Í raun var allt í baklás síðan ný stjórnvöld tóku við völdum í Úkraínu í desember sl. þar til nú. Og þrátt fyrir mikinn þrýsting heimamanna á okkar vegum, utanríkisráðuneytisins á Íslandi og ræðismanns Íslands í Kænugarði dróst þetta meira en góðu hófi gegnir. Því miður er skriffinnskan og stjórnvaldskerfið þarna úti miklu svifaseinna en við eigum að venjast.

Við sem stöndum að Jól í skókassa verkefninu viljum líka taka það fram að okkur þykir mjög leitt hvernig málin þróuðust síðustu mánuði. Þetta tók  miklu lengri tíma en við hefðum nokkurn tímann getað ímyndað okkur. Og þetta eru mikil

Glaðir unglingar fá sælgæti frá fulltrúum Jól í skókassa í janúar 2013

Glaðir unglingar fá sælgæti frá fulltrúum Jól í skókassa í janúar 2013

vonbrigði fyrir okkur líka. Síðan fyrstu gjafirnar voru sendar til Úkraínu árið 2004 höfum við aldrei lent í viðlíka veseni. Það er von okkar og trú að þetta sér algjört undantekningartilfelli. En hins vegar skal það skýrt tekið fram að gjafirnar munu komast til skila, það er alveg á hreinu! Enda eru heimamenn á okkar vegum nú í óða önn að dreifa kössum og skipuleggja frekari dreifingu. Það má því með sanni segja að gjafirnar í ár séu því „Páskar í skókassa“.

Fyrir hönd Jól í skókassa,

Salvar Geir Guðgeirsson.