Í gær, föstudag 5.nóvember lögðu mjög margir leið sína í félagshús KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík til að gefa skókassa til verkefnisins Jól í skókassa, sem nær hámarki í dag á lokaskiladegi þess, laugardaginn 6.nóvember. Frábært var að fylgjast með hvað margir voru áhugasamir um verkefnið, og hvað margir höfðu útbúið skókassa með fallegum jólagjöfum til að leggja til þess.
Nokkrir hópar grunnskólabarna komu færandi hendi í gær, og einnig börn frá tveimur leikskólum í Reykjavík. Skókassarnir frá börnunum voru vandaðir og fallegir, og gaman var að sjá hvað þau höfðu lagt mikla alúð í undirbúning kassana.
Fulltrúar margra félagsmiðstöðva, einstaklingar, fjölskyldur, og ýmsir hópar hafa einnig komið og lagt söfnuninni lið með fagurlega skreyttum skókössum með góðum gjöfum.
Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Skókössunum sem safnast í ár verður meðal annars dreift á heimili fyrir munaðarlausa, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra, en þeir verða sendir til Úkraínu í janúar.
Allar upplýsingar um verkefnið, leiðbeiningar um það hvernig skal ganga frá skókössunum, listi yfir þá hluti sem mega og mega ekki fara í kassana, er að finna á heimasíðu Jóla í skókassa:
www.skokassar.net . Verkefnið hefur einnig síðu á Facebook.
Lokaskiladagur verkefnisins á höfuðborgarsvæðinu er sem fyrr segir, í dag, laugardaginn 6.nóvember, í félagshúsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík frá kl. 11:00 til kl. 16:00. Léttar veitingar verða í boði, auk þess sem boðið verður upp á myndasýningu frá afhendingu skókassa úr verkefninu Jól í skókassa frá síðustu jólum í Úkraínu.