Námskeið og fundir fyrir starfsfólk sumarsins 2018

Hæft starfsfólk er lykillinn til að tryggja gæði, öryggi og vellíðan þátttakenda í KFUM og KFUK. Skyldur og kröfur til þeirra sem starfa með börnum og unglingum aukast jafnt og þétt með hverju ári. Til að hjálpa starfsfólki sumarsins að uppfylla þær kröfur og væntingar sem gerðar eru til þeirra, stendur KFUM og KFUK fyrir nokkrum mikilvægum námskeiðum. Að sækja námskeiðin eru góð fjárfesting til framtíðar. Reynslan sýnir að sú þekking sem fólk nemur gagnast þeim víða í lífnu. Þá eru námskeiðin einnig góður vettvangur til að kynnast samstarfsfólki sumarsins.

Brunavarna- og skyndihjálparnámskeið

Fyrir alla starfsmenn 18 ára og eldri.

Öryggismálin eru í forgrunni í starfi KFUM og KFUK. Við viljum að starfsfólk okkar hafi grunn í skyndihjálp og brunavörnum og kunni að bregðast rétt við. Á námskeiðinu er farið í grundvallaratriði er lýtur að skyndihjálp og gerðar eru æfingar. Þá er farið yfir eldvarnir, viðbrögð við eldsvoða og meðferð slökkvitækja o.fl. Kennarar á námskeiðinu eru Jón Pétursson og Kristján Sigfússon.

Léttur kvöldverður er innifalinn í námskeiðinu.

Dagsetning: Þriðjudaginn 15. maí kl. 16:00–21:00
Staðsetning: Holtavegur 28

Umsjón af hálfu KFUM og KFUK: Ársæll Aðalbergsson

Verndum þau – Tvær tímasetningar

Fyrir alla starfsmenn 18 ára og eldri. Aðstoðarforingjar eru einnig hvattir til að mæta.

Á námskeiðinu Verndum þau er farið fyrir skyldur og ábyrð starfsfólks sem starfar með börnum og unglingum. Þátttakendur læra að lesa vísbendingar um vanrækslu eða ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt. Þá er ekki síður mikilvægt að kunna að bregðast rétt við, ef slík mál koma upp. Ólöf Ásta Farestveit og Þorbjörg Sveinsdóttir, höfundar bókarinnar Verndum þau, eru kennarar á námskeiðinu.

KFUM og KFUK gerir þær körfur til allra sem starfa með börnum og unglingum á vettvangi félagsins að sækja Verndum þau námskeið á a.m.k. tveggja ára fresti. Til að tryggja að allir komist á Verndum þau námskeiðið heldur KFUM og KFUK það tvisvar sinnum með 6 vikna millibili.

Léttur kvöldverður er innifalinn í námskeiðinu.

Dagsetning: Þriðjudagurinn 24. apríl kl. 17:30–20:30
Dagsetning: Miðvikudagurinn 6. júní kl. 17:30–20:30

Umsjón af hálfu KFUM og KFUK: Hjördís Rós Jónsdóttir

Námskeið fyrir aðstoðarforingja

Fyrir aðstoðarforingja og sjálfboðaliða yngri en 18 ára.

Fjöldi unglinga yngri en 18 ára taka þátt í sumarstarfi KFUM og KFUK sem sjálfboðaliðar. Þó svo þeir beri ekki lagalegar skyldur sem starfsmenn, skipir miklu máli að þeir séu vel undirbúnir fyrir hlutverk sitt. Á námskeiðinu er farið yfir hlutverk og skyldur aðstoðarfoingja, samskipti við þátttakendur, áherslur í starfinu o.fl.

Dagsetning: Miðvikudaginn 30. maí kl. 17:00–19:00
Staðsetning: Holtavegur 28

Umsjón af hálfu KFUM og KFUK: Hjördís Rós Jónsdóttir og Ársæll Aðalbergsson

Samráðsfundur forstöðufólks

Fyrir forstöðufólk í sumarstarfi KFUM og KFUK.

Á þessum fundi förum við yfir helstu áskoranir í starfi forstöðufólks og deildum reynslu og lausnum. Þá munum við ræða áherslur og ramma sem við höfum í kristilegri fræðslu og helgihaldi, viðbragðsáætlanir og öryggismál auk annarra atriði sem forstöðufólk þarf að hafa á hreinu sínu starfi. Hér er á ferðinni jafningjafundur því reynslan og þekkingin liggur í fundarmönnum sjálfum.

Fundurinn hefst með léttum kvöldverði.

Dagsetning: Miðvikudaginn 30. maí kl. 19:30–22:00.
Staðsetning: Holtavegur 28.

Umsjón af hálfu KFUM og KFUK: Tómas Torfason.

50 lausnir á hverjum vanda – Starfsmannanámskeið (2 dagar)

Fyrir starfsmenn sumarstarfs KFUM og KFUK, 18 ára og eldri.

Dagskrá hefst í KFUM og KFUK húsinu við Holtaveg föstudaginn 1. júní kl. 9:00 að morgni og lýkur í Vatnaskógi laugardaginn 2. júní kl. 23:30 (boðið verður upp á ferð til Reykjavíkur eftir námskeiðið). Námskeiðið fjallar um hvað það þýðir að starfa í sumarbúðum, ábyrgð, væntingar og skyldur frá margvíslegum hliðum. Mikilvægt: Þátttakendur þurfa að kynna sér sumarbúðahandbók KFUM og KFUK á vefslóðinni www.kfum.is/handbok áður en námskeiðið hefst og taka Myers Briggs persónuleikapróf. Hægt er að nálgast prófið á https://www.16personalities.com/is. Þegar búið er að taka prófið þarf að prenta út niðurstöðurnar og koma með á námskeiðið.

Innifalið í námskeiðinu er m.a. hádegis- og kvöldverðir báða daga. Gisting og morgunverður í Vatnaskógi.

Dagsetning: 1.–2. júní (föstudagur- laugardagur).
Staðsetning: Í Vatnaskógi og víðar.

Umsjón af hálfu KFUM og KFUK: Halldór Elías Guðmundsson.