Dagana 13.-18. júlí fer fram norrænt æskulýðsmót í Vestmannaeyjum sem ber yfirskriftina Feel the nature. Mótið er samstarfsverkefni KFUM og KFUK á Norðurlöndunum, auk Færeyja en sambærileg mót hafa verið haldin á tveggja til þriggja ára fresti um langa tíð og var fyrsta mótið haldið árið 1939 og sagan því löng og merkileg. Að þessu sinni koma þátttakendur frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Færeyjum og Íslandi og verður heildarfjöldinn á mótinu 133 og er skiptingin nokkuð jöfn á milli landa en aldur þátttakenda er 12-17 ára. Samhliða mótinu verður sérstakt leiðtoganámskeið fyrir 16-17 ára en ungir leiðtogar frá þátttökulöndunum á aldrinum 20-30 ára hafa á síðustu 18 mánuðum skipulagt námskeiðið og munu annast kennsluna.

Bæði leiðtoganámskeiðið og norræna mótið sjálft hafa notið stuðnings frá NORDBUK, Norrænu barna- og ungmennanefndinni, en markmið styrkjaáætlunar NORDBUK er að efla samtakamátt og möguleika barna og ungmenna til þátttöku og áhrifa í lýðræðisstarfi, auk þess að styrkja norræna samkennd meðal þeirra.

Ljóst er að verkefni eins og þetta er kostnaðarsamt og erum við þakklát þeim fjölmörgu aðilum sem hafa með ýmsum hætti lagt okkur lið þannig að þetta mætti verða að veruleika. Við munum reyna að deila fréttum og myndum frá mótinu á samfélagsmiðla og hér á heimasíðuna og má í því sambandi benda á myndaalbúm á Flickr þar sem sem birtar verða myndir af mótinu. Heimasíða mótsins er www.kfum.is/nordiccamp.