Síðasti heili dagur 6.flokks í Vindáshlíð var venju samkvæmt veisludagur. Stelpurnar voru vaknaðar snemma og skelltu sér í morgunmat og fánahyllingu. Síðasti hefðbundni biblíulesturinn fór svo fram í kvöldvökusalnum þar sem fjallað var um gleði, og það hvernig Guð vill að við séum glöð og að við deilum gleði okkar með öðrum.

Þar næst var komið að úrslitaleiknum í brennókeppinni æsispennandi. Að auki var boðið upp á keilukeppni fram að hádegismat, en keilurnar voru í formi flaskna fullra af vatni og voru vinsælar meðal stelpnanna.

Margar stelpur voru hissa og skeggræddu sín á milli um súkkulaðimola sem höfðu verið settir á alla kodda í Vindáshlíð fyrr í vikunni meðan stelpurnar voru uppteknar í morgunmat, en uppi voru kenningar um að Hulda og Anna eldhússstarfsmenn væru þar að verki.

Í hádegismat var boðið upp á lasagne og meðlæti. Eftir hádegi slökuðu margar á, en svo var boðið upp á limbókeppni undir stjórn Ólafar íþróttaforingja.

Í kaffitímanum voru að venju nýbakaðar kökur á boðstólum, og stelpurnar sungu afmælissönginn fyrir Karitas brennóforingja sem varð 18 ára þennan dag. Eftir kaffi hófst hárgreiðslukeppni í tilefni veisludags.  Margar tóku þátt, og var dómgæsla í höndum Heklu, Aldísar og Ástrósar aðstoðarforingja. Mjög margar frumlegar, skemmtilegar og flottar hárgreiðslur litu dagsins ljós, meðal annars skreyttu nokkrar hárið með blómum, ein setti flösku á höfuðið sitt og vafði hári utan um, ein var með heilan húlla-hring i hárinu og svona mætti lengi telja. Fastar fléttur voru mjög vinsælar, og ljóst er að margar stelpur eru í hópnum sem eru mjög færar í höndunum. Engin skylda var þó að taka þátt, og einnig var í boði að teikna, lita, gera vinabönd og margt fleira.

Fljótlega eftir að hárgreiðslukeppninni lauk, fóru stelpurnar í sparifötin, þar sem styttist óðum í sjálft veislukvöldið.  Þegar allar voru tilbúnar hittist hópurinn fyrir framan kirkjuna okkar í Vindáshlíð, til að „Vefa mjúka“. Það þýðir að allar stelpurnar raða sér upp í tvöfalda röð og mynda tvær og tvær saman göng með því að taka saman höndum og lyfta þeim upp, og svo byrja stelpurnar á öðrum endanum að labba gegnum göngin, og svo koll af kolli. Á meðan þetta er gert er sungið lagið „Vefa mjúka“ sem er gamalt Vindáshlíðarlag. Þar sem yfir 80 stelpur voru í hópnum, varð runan mjög löng og þetta tók góðan tíma, en var gaman.

„Vefa mjúka“ lauk á grasflötinni fyrir framan húsið, og héldu þá stelpurnar inn í setustofu þar sem veisludagsmyndataka fór fram. Hvert herbergi stillti sér upp með sinni bænakonu, og hélt svo inn í matsal, sem hafði verið skreyttur sérstaklega fyrir veislukvöldverðinn, borðum raðað öðruvísi en vanalega og kerti sett á borðin og dregið fyrir gluggana.

Stelpur í hverju herbergi sátu til borðs með bænakonunni sinni og gæddu sér á Vindáshlíðarpizzum sem eldhústeymið Ingibjörg, Anna og Hulda ásamt aðstoð Bryndísar foringja hafði hrist fram úr erminni af mikilli snilld. Bakað var ógrynni af pizzum, sem stelpunum fannst ljúffengar. Svo fór að ekki svo mikið sem einn biti af pizzu var eftir þegar veislukvöldverðinum lauk. Þegar flestar voru búnar að borða fóru fram verðlaunaafhendingar fyrir íþróttakeppnir, brennókeppni og hárgreiðslukeppni.

Fram að veislukvöldvöku fóru stelpurnar svo inn í herbergi að pakka fyrir brottför daginn eftir. Þær stóðu sig vel í því og náðu sumar að klára verkið áður en kvöldvakan hófst.

Veislukvöldvakan er ólík öðrum kvöldvökum vikunnar að því leyti að skemmtiatriði eru alfarið í umsjá foringja. Mörg lög voru sungin og svo stigu foringjarnir á svið í leikritum og sprelli, sem vakti hlátur og kátínu í stelpuhópnum. Meðal annars fór Ingibjörg foringi i hlutverk íslenska fánans, Salóme foringi í gervi rauðhettu, Ásta og Bryndís foringjar í gervi hermanna, Guðlaug foringi rappaði og Hulda og Anna eldhússtarfsmenn léku vinsælt leikrit af veitingastað. Hlíðarsjónvarpið var svo einnig á dagskrá, en þá var farið yfir helstu „fréttir“ vikunnar af stelpunum í hverju herbergi, með spaugilegu yfirbragði. Anna og Kristín starfsmenn stýrðu Hlíðarsjónvarpinu af metnaði.

Veislukvöldvökunni lauk svo með Vindáshlíðarlaginu og dansi við það, en þá hafði sérstakur Vindáshlíðartexti verið saminn við lagið „Never forget“ sem upphaflega var í flutningi Grétu Salóme og Jónsa. Allar stelpurnar fengu svo að dansa og syngja með í lokin.

Kvöldkaffið á veislukvöld samanstóð af kexi og íspinnum, sem stelpurnar gæddu sér á meðan þagnarbindindi var í gangi. Þar næst hlustuðu þær á fallega hugleiðingu Guðlaugar Maríu foringja fyrir  svefninn. Í lok kvölds voru margar stelpur orðnar mjög þreyttar, en klukkan var að ganga 1 þegar ró var komin yfir Hlíðina.

Brottfarardagur

Brottfarardagur, 21. júlí, hófst með morgunverði og svo luku stelpurnar við pökkun á eigum sínum áður en dagskrá dagsins fór í gang af fullum krafti. Sigurvegararnir í brennókeppninni öttu kappi við lið foringjanna, sem komu sigurvissir til leiks í skrautlegum búningum og með andlitsmálningu. Loks keppti allur stelpnahópurinn við foringjana og sigurliðið. Að því loknu fengu allar stelpur söngbók Vindáshlíðar að gjöf með kveðju frá bænakonunni sinni. Allir foringjarnir stilltu sér svo upp til að skrifa nafn sitt í bækurnar.

Hlýtt og þurrt var í veðri, svo ákveðið var að snæða hádegisverðinn, pylsur, utandyra. Það gekk vel og fljótt fyrir sig, og fljótlega eftir það héldu stelpurnar upp í kirkju, þar sem lokasamvera var. Þar var rætt um vináttuna og mikilvægi hennar, og það hvernig Jesús vill alltaf vera vinur okkar. Einnig var óskilamunum komið til skila, og Kristín umsjónarforingi afhenti bikar fyrir ratleik og „innanhússkeppnina“, en hún felst í því að halda herbergjunum snyrtilegum, sýna góða hegðun, vera stilltar í matsal ásamt fleiru. Það var herbergið Grenihlíð sem bar sigur úr býtum. Að lokum fengu allar stelpurnar armbönd að gjöf sem á stendur „Vindáshlíð – Vertu trú“ (það eru einkunnarorð Vindáshlíðar).

Nýbakaðir kanilsnúðar og djús beið stelpnanna svo eftir kirkjustundina og rútur sem áttu að flytja þær til Reykjavíkur voru mættar á svæðið. Stelpurnar gæddu sér á snúðunum og héldu svo fljótlega inn í rútur. Þetta gekk hratt og vel fyrir sig, og stelpurnar voru duglegar.

Myndir eru væntanlegar frá veisludegi og brottfarardegi hér inn á heimasíðuna.

Við þökkum kærlega fyrir frábæra samveru með yndislegum stelpum þessa viku í Vindáshlíð.

Kær kveðja,

Soffía Magnúsdóttir

forstöðukona