Stúlkurnar vöknuðu hressar í morgunsárið og fengu kornflex, seríós og kókópuffs að borða fyrir fánahyllingu. Því næst var morgunstund þar sem forstöðukonan sagði frá dæmisögunni um miskunnsama Samverjann með nýju ívafi. Eftir morgunstund var keppt í brennó og limbó fram að hádegismat sem var að þessu sinni dýrindis plokkfiskur, salat og rúbrauð með smjöri. Boðið var upp á tvær göngur, upp á Sandfell og hringinn í kringum Sandfell. Í kaffitímanum var boðið upp á brauð með osti, gúrki og tómötum, ávextir og kex og strax eftir kaffi var hin fræga Lífsganga gegnum skóginn. Í kvöldmatinn var jarðaberjagrautur með eplum, appelsínum, og bönunum. Strax eftir kvöldmat var hugleiðing og kyrrðarstund í kirkjunni. Nokkrar stúlkur tíndu falleg blóm á altarið og nokkrar fengu að hringja kirkjuklukkunum að stundinni lokinni. Sungnir voru hugljúfir söngvar og við fengum að vita það hvernig Hallgrímskirkja í Vindáshlíð komst þangað. Því næst var ferðinni heitið í kvöldkaffi sem var heldur óvenjulegt. Foringjarnir höfðu búið til kaffihús úr matsalnum með því að skreyta salinn, kveikja á kertum og franskri tónlist. Í kvöldkaffi var boðið upp á franska súkkulaðiköku með ís og heita eplaköku með ís. Ekki fannst þeim það leiðinlegt. Eftir kvöldkaffi enduðu þær daginn með bænakonunni sinni inni á herbergi eftir að hafa tannburstað niðri við læk. Takk fyrir yndislegan dag 🙂