Ýmislegt er búið að vera á döfinni hjá stúlkum flokksins. Veðrið er búið að leika við okkur undanfarna tvo daga og hefur það verið nýtt til hins ýtrasta. Á miðvikudag voru furðuleikar þar sem stúlkurnar leystu verkefni bæði sem einstaklingar og í samvinnu. Þar mátti finna verkefni eins og brúsahald, broskeppni og hanaslag. Eftir furðuleikana háðu stúlkurnar stórleik gegn foringjum Hólavatns í fótbolta sem endaði með sigri þeirra.

Eftir miðvikudagskaffið og frjálsan tíma héldum við í sveitaferð á Vatnsenda. Þar tóku á móti okkur nýfæddir kettlingar sem litu meira út eins mýs en kettir. Stúlkurnar fengu einnig tækifæri á því að handmjólka kú og fá að smakka beint úr spenanum. Að lokinni ferð var öllum skutlað á kerru að Hólavatni í boði Sveins bónda á Vatnsenda.

Ekki var öll dagskráin búin þennan dag því eftir pítsukvöldverð og kvöldvöku var skellt á náttfatapartýi með tilheyrandi dansi, leikjum og leikþáttum. Það voru þreyttar stúlkur sem lögðust í bólið.

 

Á fimmtudagsmorgni vöknuðu stúlkurnar í mikilli veðurblíðu. Afþreyingar dagsins tengdust því mikið góðri veðráttu. Stúlkurnar renndu sér niður segldúk með vatni og sápu, vatnakúlan var í fullri notkun, vatnabusl og bátsferðir einkenndu daginn. Einnig mátti sjá margar fallegar hárgreiðslur fyrir veislukvöldverðinn en nokkrar höfðu dundað sér við að búa til listilegar hárgreiðslur í hverja aðra. Stúlkurnar áttu svo ánægjulegt veislukvöld þar sem var mikið hlegið og skemmt sér yfir atriðum starfsfólks Hólavatns. Það eru ánægðar stúlkur með góðar minningar sem halda heim í dag eftir dvölina á Hólavatni.

Það er búið að vera heiður að vera með þennan stúlknahóp. Hann er hreint út sagt búin að vera frábær og stúlkurnar búnar að vera sjálfum sér og foreldrum til sóma.

Takk fyrir mig.

Sólveig Reynisdóttir

forstöðukona