Þá er seinasti dagurinn runninn upp, veisludagur í öllu sínu veldi. Morguninn var hefðbundinn, byrjuðum á morgunmat, héldum svo upp á fána og þaðan á biblíulestur. Á biblíulestrinum flettum við í Nýja testamentinu og skoðuðum nokkur vers ásamt því að rifja upp allt það sem við höfum lært. Síðan fengu stelpurnar það verkefni að búa til klippimyndir af því sem þeim fannst merkilegasta sem þær höfðu lært. Það var gaman að sjá afrakstur hvers herbergis fyrir sig og hversu klárar og sniðugar þær eru. Við bendum á myndirnar sem koma inn á morgun til að sjá myndirnar. Úrslitaleikurinn í brennó fór fram fyrir hádegi og var það Eski- og Víðihlíð sem vann og hljóta þær því titlinn brennómeistarar Vindáshlíðar í 3. flokki 2011. Í hádegismatinn var boðið upp á ávaxtasúrmjólk og rúgbrauð. Eftir hádegi kepptu brennómeistararnir við foringjana í hörkuspennandi leik sem endaði með sigri foringjanna. Síðan fengu brennómeistararnir að vera með foringjum í liði á móti öllum og því næst annað sætið með foringjum á móti öllum. Í kaffinu var boðið upp á ljúffenga súkkulaðiköku með bleiku kremi ásamt bollum með smjöri. Sem stendur eru stelpurnar að undirbúa sig undir veislukvöldið. Ákveðið var að endurtaka göngugötuna og vinadekrið þannig að stelpurnar rölta nú á milli herbergja og skoða hvað hinar bjóða upp á. Einnig er í gangi hárgreiðslukeppni þar sem úrslitin verða tilkynnt í kvöld. Klukkan 18:00 munum við svo vefa mjúka frá fánanum og inn í veislusalinn þar sem verður boðið upp á pizzur að hætti Vindáshlíðar og viðurkenningar veittar fyrir íþróttakeppnir og fleira. Í kvöld munu foringjarnir halda uppi stuðinu og bjóða upp á einstaka veislukvöldvöku með atriðum eins og þeim einum er lagið. Í kvöldkaffinu verður boðið upp á ís og á hugleiðingunni verður sagt frá Guði sem þreytist aldrei að heyra okkur biðja. Það verða án efa þreyttar stelpur sem leggjast á koddann sinn í kvöld eftir síðustu endinguna með bænakonunni sinni en vonandi allar með góðar minningar um skemmtilega dvöl í Vindáshlíð.

Starfsfólkið þakkar öllum þessum yndislegu stelpum fyrir að gleðja okkur með nærveru sinni. Vikan er búin að vera hreint út sagt ótrúlega skemmtileg og gaman að sjá hvað hver og ein stelpa er einstök sköpun Guðs og hefur mikið fram að færa.

Minnum alla á að rútan kemur í aðalstöðvar KFUM og KFUK að Holtavegi 28 um kl. 12:00 á morgun, miðvikudag.