Nú styttist í leiðtogaráðstefnuna Global Leadership Summit, sem fram fer dagana 5. – 6. nóvember í Digraneskirkju. Sem fyrr tekur KFUM og KFUK virkan þátt í undirbúningi ráðstefnunnar. GLS er ein fremsta leiðtogaráðstefna sem haldin er á Íslandi, en ræðumennirnir eru allir vel þekktir og hafa skarað fram úr hver á sínu sviði, en ræðumenn eru m.a. Bill Hybels, Jim Collins, Adam Hamilton og Terry Kelly.
Upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á vefsíðunni www.gls.is. Almennt þátttökugjald er kr. 12.000 krónur, en kr. 8.000 fyrir námsmenn og bótaþega.
Frá undirbúningsnefnd GLS Íslandi :
Leiðtogaráðstefnan Global Leadership Summit (GLS) verður haldin í annað sinn á Íslandi 5.-6. nóvember n.k. Á síðasta ári komu 200 manns og stefnir í góða þátttöku í ár. GLS er alþjóðleg ráðstefna sem haldin er árlega og sýnd um víða veröld. Markmið hennar er að veita kristnum einstaklingum innblástur og nýjar hugmyndir til uppbyggingar og vaxtar. Á ráðstefnunni koma meðal annars saman helstu hugsuðir úr heimi viðskiptalífsins og deila þekkingu sinni með ráðstefnugestum. Einnig koma fram fulltrúar kristinna safnaða sem náð hafa miklum árangri í starfi sínu.
Sjaldan hefur þörfin fyrir slíkan innblástur verið meiri en einmitt nú um þessar mundir. Kirkjan stendur á krossgötum, eins og samfélagið allt. Tekjur dragast saman og víða er sótt að kristnum mönnum. Á slíkum tímum þurfa leiðtogar að vakna til vitundar um hlutverk sitt og möguleika. Á ráðstefnunni koma margir slíkir leiðtogar fram og þeir lýsa hugsjónum sínum og aðferð til uppbyggingar í því samfélagi sem þeir leiða.
Dagskráin er byggð upp með þeim hætti að sýnt er frá ráðstefnunni á breiðtjaldi. Hljóðflutningur og mynd eru í hæsta gæðaflokki og tónlistamenn flytja lifandi tónlist á milli atriða.
Kirkjan þarf öfluga leiðtoga og í hverjum kristnum manni býr slíkur leiðtogi. Ráðstefnan, Global Leadership Summit, veitir mikilvægt svar við því ákalli.
Nánari upplýsingar á heimasíðunni http://www.gls.is. Þar er einnig hægt að skrá sig á ráðstefnuna.