Næsta sunnudagskvöld, 17.október, verður þriðja sunnudagssamvera vetrarins kl. 20 á Holtavegi 28 í Reykjavík.
Yfirskrift samverunnar er ,,Tökum trúna alvarlega", og ræðumaður kvöldsins er sr. Ólafur Jóhannsson.
Hinar hæfileikaríku og ungu söngkonur Þóra Björg Sigurðardóttir og Perla Magnúsdóttir munu gleðja okkur með söng sínum, en Anna Elísa Gunnarsdóttir mun sjá um undirleik.
Stjórnun samkomunnar er í höndum tónlistarfólksins. Samkomuþjónar verða Hörður og Sigrún, en Gylfi Bragi mun hafa umsjón með tæknimálum.
Eftir að dagskrá lýkur verður kaffi – og sælgætissala á vegum KSS opnuð, og eru gestir hvattir til að staldra við og eiga saman notalega og góða stund. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Í vetur verða sunnudagssamkomur á Holtavegi 28, hvern sunnudag kl.20. Fjölbreyttur hópur ræðumanna mun á samkomum vetrarins fjalla um Guðs orð út frá ýmsum sjónarhornum og lífleg tónlist er á hverri samkomu. Samkomurnar eru hugsaðar sem vettvangur til að eiga notalega og uppbyggjandi stund í vönduðu umhverfi. Það er stór hópur félagsfólks sem kemur að undirbúningi og framkvæmd hverrar samkomu; skipuleggjendur, tónlistarfólk, tæknimenn, ræðumenn, samkomuþjónar og gestir.
Það er gott að hefja vikuna á góðri stund með því að sækja sunnudagssamveru.