Í gærmorgun vöknuðu stelpurnar snemma spenntar yfir því að vera í Vindáshlíð. Eftir morgunmat og fánahyllingu var biblíulestur. Á biblíulestri voru stelpurnar hvattar til að nota Nýju Testamentin sín og fengu þær fræðslu um biblíuna og mikilvægi hennar fyrir daglegt líf okkar endar er hún sem leiðarljós er lýsir okkur í gegnum lífið. Að biblíulestri lokið var farið í óvissuferð á sveitabæ sem heitir Háafell í Hvítársíðu. Á leiðinni var mikið sungið og sagðar voru skrýtlur og lesnar voru sögur fyrir stelpurnar. Þegar komið var að bænum Háafelli var strax farið að grilla pylsur og voru stelpurnar mjög ánægðar með það. Á meðan verið var að grilla fóru stelpurnar í leiki og fengu hundarnir á bænum að vera með. Eftir hádegismat var haldið í hænsnakofann þar sem stelpurnar fengu allar að klappa litla hænuunganum Gulla. Eftir það var haldið í fjárhúsið þar sem stelpurnar fengu að fara hver og ein inn í stíu þar sem geiturnar hvíldust. Það var margt að sjá á Háafelli meira að segja lamb sem átti geit að móður, stelpunum fannst það svolítið skrítið þar sem lambið var eiginlega orðið stærra en geitamamman sín. Eftir þetta var farið út þar sem hópur geita og kiðlinga kom hlaupandi á móti hópnum og fengu allar stelpurnar að halda á kiðlingi. Allar fengu svo að smakka kalda og góða geitamjólk og fanst stelpunum það mjög spennandi. Á bænum er líka ein belja sem heitir Sól og mjólkar hún að meðaltali 20 lítra á dag og fengu þær sem vildu að handmjólka hana. Eftir allt þetta voru stúlkurnar orðnar svangar svo haldið var heim að bæ þar sem við fengum að setjast inn í stofu og gæddum okkur á gómsætri jógúrtköku, bananabrauði og svo fengum við heimalagaðar pönnukökur og þær sem vildu fengu kúamjólk og aðrar geitamjólk með. Eftir vel heppnaða ferð fóru stelpurnar sáttar upp í rútu og heim í Vindáshlíð. Þegar heim var komið var kvöldmatur borinn fram og var á boðstólnum kjúklinganaggar, grænmeti og hrísgrjón. Á kvöldvöku var mikið stuð þar sem sungið var dátt og farið var í ýmsa skemmtilega leiki. Þegar leið á kvöldið voru dömurnar orðnar þreyttar og eftir yndislega lokastund og hugleiðingu fóru þær rjóðar í kinnum hver í sína koju.
hér eru myndir dagsins