Í dag fengu krakkarnir heim með sér miða…á miðanum var boð til handa börnunum varðandi gistingu í Kaldárseli annað kvöld!
Þorri barnanna var mjög spenntur yfir þessu boði, enda ætluðu flest þeirra að ræða málið vel og vandlega við foreldrana þegar heim væri komið. Skildist mér á flestum börnunum að uppistand foringjanna á kvöldvöku væri helsta ástæða þess að nauðsynlegt væri að gista. Ljóst er að pressan er mikil…kvöldvakan verður að vera sú besta sinnar tegundar á Íslandi (veit svosem ekki hvernig tegund það er).
Annars var drullumallið stundað ötullega í dag, líkt og fyrri daginn. Ekki nóg með það heldur var keypt gull- og glimmermálning í gær. Þannig var mikið glamúrþema við föndurgerðina og einnig kom álpappír eitthvað við sögu.
Eftir hádegismat voru KALDÁRSELSLEIKAR! Á Kaldárselsleikunum var keppt í afar framúrstefnulegum íþróttum. Vil ég meina að Kaldársel standi framarlega þegar kemur að víðsýni um hvað skuli kallast íþrótt og hvað ekki. Meðal keppna á dagskránni voru fluguveiðar, stígvélaspark og rúsínuspýtingar.
Og síðast en ekki síst…var farið í hellaferð! Hellarnir sem urðu fyrir valinu (því það er úr fjölmörgum að velja) heita þeim frumlegu nöfnum 90m hellirinn og 100m hellirinn. Í 100m hellinum hittum við fyrir þýska konu sem var að leita að "fjársjóði" í Alþjóðlegri GPS (nörda) fjársjóðsleit. Það kom á daginn að fjársjóðnum hafði verið stolið af barni úr Kaldárseli fyrr í sumar, en sem betur fer fannst hann hér þegar heim var komið.
Myndir fyrir neðan…